Laugardagur 08.05.2021 - 06:40 - Rita ummæli

Hvers vegna drap Gissur Snorra?

Síðustu misseri hef ég lesið aftur verk Snorra Sturlusonar og skrifað talsvert um hann, þar á meðal kafla í bókinni Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, sem kom út í Brüssel í desember 2020. Að mörgu er að hyggja. Mér sýnist, að helsti heimildarmaðurinn um Snorra, Sturla Þórðarson, hafi ekki alltaf látið föðurbróður sinn njóta sannmælis. Sturla tekur til dæmis fram, að Snorri hafi verið fjöllyndur. En hann var ekki fjöllyndari en aðrir höfðingjar á hans tíð, til dæmis fósturfaðir hans Jón Loftsson og fósturbræður hans í Odda.

Þótt Sturla gefi í skyn, að Snorri hafi í Noregsferðum sínum lofað að reyna að koma landinu undir konung, ber að veita því athygli, að hann talar jafnan um óskir Norðmanna, ekki fyrirheit Snorra sjálfs. Raunar er ljóst, að hann hefur ekki lofað neinu slíku, heldur aðeins því að vernda norska kaupmenn fyrir ágengni annarra goða. Það sést best á því, að eftir fyrri Noregsferð sína sendi Snorri son sinn, Jón murt, til hirðar konungs, en síðan fékk Jón leyfi til að snúa heim. Það hefði hann ekki fengið, hefði faðir hans rofið einhver gefin fyrirheit í Noregi. Órækasti vitnisburðurinn um skoðanir Snorra á konungsvaldi eru ræður Þórgnýs lögmanns hins sænska og Einars Þveræings í Heimskringlu. Ég er ekki heldur viss um, að Snorri hafi verið eins sérgóður og deigur og ætla mætti af lýsingum Sturlu.

Mestu máli skiptir, að Sturla var ólíkt Snorra konungssinni, sannfærður um, að Íslandi væri best borgið í veldi Noregskonungs. Hann forðaðist ætíð að styggja Norðmenn. Þess vegna lætur Sturla að því liggja, að Gissur Þorvaldsson hafi ákveðið upp á sitt eindæmi að drepa Snorra í Reykholti 1241. En það er afar ólíklegt. Snorri var maður friðsamur, og Gissuri stafaði engin hætta af honum. Þá var hins vegar svo komið, að Hákon Noregskonungur bar þungan hug til Snorra vegna þess, að hann taldi hann hafa stutt uppreisn gegn sér. Eina eðlilega skýringin á drápi Snorra er, að konungur hafi gefið Gissuri bein fyrirmæli um það, en Sturla hafi ekki viljað segja frá því berum orðum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. maí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir