Mánudagur 28.06.2021 - 08:37 - Rita ummæli

Hreyfing og flokkur þjóðernissinna

Sagnfræðingarnir Ragnheiður Kristjánsdóttir og Pontus Järvstad draga upp ranga mynd af fasisma á Íslandi í framlagi til bókarinnar Anti-Fascism in the Nordic Countries, sem kom út hjá Routledge árið 2019. Þau tala í fyrsta lagi um nasisma, ekki fasisma, en í þágu efnislegrar umræðu er eðlilegast að hafa orðið „nasisma“ aðeins um hið þýska afbrigði fasismans.

Í öðru lagi segja þau Ragnheiður og Pontus, að Þjóðernishreyfing Íslendinga, sem stofnuð var vorið 1933, hafi verið fasistaflokkur. En Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur, sem rannsakað hefur þessa sögu manna mest, segir réttilega í Sögu 1976, að Þjóðernishreyfingin hafi ekki verið hreinræktaður fasistaflokkur, heldur sambland íhalds- og fasistaflokks.

Í þriðja lagi klofnaði einmitt Þjóðernishreyfingin fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík í janúar 1934. Margir félagar hennar töldu Sjálfstæðisflokkinn skárri kost en vinstri flokkana, og tóku tveir þeirra sæti á lista flokksins. Við það vildu hinir eiginlegu fasistar í Þjóðernishreyfingunni ekki sætta sig og stofnuðu Flokk þjóðernissinna, sem bauð fram í bæjarstjórnarkosningum 1934 og 1938 og í alþingiskosningum 1934 og 1937, en hlaut sáralítið fylgi.

Þjóðernishreyfingin var leyst upp vorið 1934, enda hafði hún frekar verið málfundafélag en stjórnmálaflokkur. Hins vegar má vissulega telja Flokk þjóðernissinna fasistaflokk, þótt stækur andkommúnismi sameinaði aðallega félagana. En þau Ragnheiður og Pontus horfa fram hjá því aðalatriði, að Flokkur þjóðernissinna var stofnaður í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn. Spaugilegt dæmi um viðleitni þeirra til að spyrða Sjálfstæðisflokkinn saman við þennan fylgislitla fasistaflokk er, þegar þau nefna, að fyrsti formaður verkamannafélags sjálfstæðismanna, Óðins, hafi áður verið í Flokki þjóðernissinna. Þau vita líklega ekki, að þessi maður, Sigurður Halldórsson, hafði enn áður verið í kommúnistaflokknum!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júní 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir