Mánudagur 28.06.2021 - 08:36 - Rita ummæli

Í Escorial-höll

Iðulega skilja fallnir óvinir frelsisins eftir sig stórhýsi, sem sjálfsagt er að nýta. Eftir fall kommúnismans í Póllandi var kauphöll hýst í fyrrverandi bækistöðvum kommúnistaflokksins. Ég býð stundum til útgáfuhófa í Rúblunni að Laugavegi 18. Og nú á dögunum kenndi ég á sumarskóla tveggja evrópskra frjálshyggjustofnana, sem haldinn var í Escorial-höll nálægt Madrid. Filippus II. lauk við smíði hallarinnar 1584, sama ár og Guðbrandur biskup gaf út biblíu sína. Hún er ekki aðeins konungshöll og raunar stærsta hús heims á sinni tíð, heldur líka klaustur, bókasafn, kirkja og grafhýsi.

Segja má, að ein rótin að þjóðlegri, borgaralegri frjálshyggju í Evrópu liggi í uppreisninni, sem íbúar Niðurlanda hófu 1566 gegn ofríki Filippusar hallarsmiðs, en norðurhluti Niðurlanda (sem við nefnum oftast eftir einu héraðinu, Hollandi) öðlaðist loks viðurkenningu sem sjálfstætt ríki 1648. Spánn hélt um skeið eftir suðurhlutanum, þar sem nú eru Belgía og Lúxemborg.

Í erindi mínu 14. júní kvað ég frjálshyggjumenn og íhaldsmenn eiga margt sameiginlegt, en tvennt skildi: Frjálshyggjumenn tryðu því, að framfarir væru mögulegar (til dæmis bætt lífskjör, hreinna umhverfi, greiðari samgöngur, minni barnadauði, fátíðari sjúkdómar, auknar lífslíkur). Enn fremur tryðu þeir því, að frelsið gæti að lokum orðið sameign allra jarðarbúa, þótt vissulega yrði hin nauðsynlega gagnkvæma aðlögun borgaranna til í langri sögulegri þróun. Hreinir íhaldsmenn væru hins vegar iðulega hræddir við breytingar og vildu reisa múra milli þjóða.

Í erindi mínu 18. júní sagði ég stuttlega frá nýútkominni bók minni um tuttugu og fjóra stjórnmálahugsuði, allt frá Snorra Sturlusyni og heilögum Tómasi af Akvínas til Miltons Friedmans og Roberts Nozicks. Ég tók boðskap frjálslyndra íhaldsmanna eins og mín saman í þremur orðum: viðskiptafrelsi, einkaeignarrétti og valddreifingu. Skemmtilegt var að heyra þessi orð hljóma um salarkynnin í Escorial.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. júní 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir