Mánudagur 28.06.2021 - 08:32 - Rita ummæli

Styrkjasósíalisminn

Á árum áður mátti gera greinarmun á tveimur tilraunum til að endurskapa skipulagið, rússneskum vinnubúðasósíalisma og sænskum vöggustofusósíalisma. Rússnesku sósíalistarnir vildu breyta þjóðskipulaginu í risastórar vinnubúðir, þar sem þeir segðu sjálfir fyrir verkum. Þeir, sem óhlýðnuðust, voru skotnir eða sveltir til bana. Sænskir sósíalistar sáu hins vegar þjóðskipulagið fyrir sér eins og vöggustofu, þar sem þeir væru hinar umhyggjusömu fóstrur, en borgararnir væru börnin. Þeir beittu ólíkt mannúðlegri ráðum en Rússar, aðallega fortölum, en gerðu líka hiklaust þær konur ófrjóar, sem taldar myndu ala af sér vanhæf afkvæmi. Alls voru framkvæmdar 62.888 ófrjósemisaðgerðir í Svíþjóð árin 1935–1975.

Undirstadan_cover_LQ_1024x1024Báðar tilraunirnar mistókust hrapallega, enda ræður engin ríkisstjórn yfir sömu þekkingu og dreifist á borgarana og nýtist best í frjálsum viðskiptum þeirra. Ráðstjórnarríkin leystust upp í árslok 1991, og um svipað leyti hurfu Svíar þegjandi og hljóðalaust frá vöggustofusósíalisma. En innan kapítalismans hefur orðið til ný tegund sósíalisma, styrkjasósíalisminn. Þeir, sem hann stunda, ætla sér ekki að velta kapítalismanum um koll, heldur reyna að sjúga út úr honum alla þá fæðu, sem þeir geta. Þeir vilja taka án þess að láta. Rússnesk-bandaríska skáldkonan Ayn Rand greindi best styrkjasósíalisminn í skáldsögunni Undirstöðunni, en hún skipti fólki í framleiðendur og þiggjendur og spurði, hvað myndi gerast, ef afburðamennirnir þreyttust á að skapa það, sem afæturnar hirtu jafnóðum.

Á Íslandi lifir styrkjasósíalisminn góðu lífi, sérstaklega í Reykjavík 101. Þar safnast það fólk, sem gerir góðverk sín á kostnað annarra, iðulega saman á kaffihúsum og krám og skálar fyrir því, hversu langt því hefur tekist að seilast í vasa skattgreiðenda. Sérstaklega nýtur þetta fólk sín vel í kosningum, sem eru stundum lítið annað en uppboð á fyrirframstolnum munum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. júní 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir