Sunnudagur 04.07.2021 - 06:57 - Rita ummæli

Hvað er fasismi?

Mér varð hugsað til þess, þegar ég las nýlega óvandaða ritgerð þeirra Ragnheiðar Kristjánsdóttur og Pontusar Järvstads um andfasisma á Íslandi í enskri bók, að brýnt var fyrir mér í heimspekinámi endur fyrir löngu að nota orð nákvæmlega. Fasismi er eitt þeirra orða, sem nú er aðallega merkingarsnautt skammaryrði, en ætti að hafa um sögulegt fyrirbæri (sem kann auðvitað að eiga sér einhverjar nútíma hliðstæður).

Sjálfum finnst mér skilgreining bandaríska sagnfræðingsins Stanleys Paynes á fasisma skýrust. Hann einkennist af þrennu, segir Payne: andstöðu við frjálslyndisstefnu, íhaldsstefnu og kommúnisma; tilraun til að taka stjórn á öllum sviðum þjóðlífsins og beina kröftum að ágengri utanríkisstefnu; rómantískri dýrkun á ofbeldi, karlmennsku, æskufjöri og umfram allt öflugum leiðtogum, sem virkjað gætu fjöldann til samvirkrar framningar. Samkvæmt því voru Mússólíni og Hitler fasistar, þótt nasismi Hitlers hefði að auki ýmis þýsk sérkenni (svo sem stækt gyðingahatur). En langsóttara er að kalla Salazar í Portúgal, Franco á Spáni og Horthy í Ungverjalandi fasista, þótt vissulega styddust þeir allir við fasískar hreyfingar. Þeir voru frekar afturhalds- eða kyrrstöðumenn, en fasismi er í eðli sínu umrótsstefna.

Payne bendir á, að fasismi á ýmislegt sameiginlegt með kommúnisma, þótt hann sé myndaður í andstöðu við hann. Það er greinilegt ættarmót með þessum tveimur alræðisstefnum, enda hafði Mússólíni verið hefðbundinn sósíalisti, áður en hann hafnaði alþjóðahyggju og varð þjóðernissinni. Hið sama er að segja um fasistaleiðtogana Mosley í Bretlandi, Doriot í Frakklandi og Flyg í Svíþjóð. Hitler kallaði sig beinlínis sósíalista, þjóðernissósíalista.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. júlí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir