Laugardagur 07.08.2021 - 05:54 - Rita ummæli

Eins einfalt og það lítur út fyrir að vera

Í heimsfaraldrinum hef ég haldið mig heima við, og þá hefur gefist tími til að lesa ýmsar ágætar bækur. Ein þeirra er sjálfsævisaga Árna Bergmanns, Eitt á ég samt, sem kom út fyrir nokkrum árum. Hún er lipurlega skrifuð eins og vænta mátti.

Árni fór ásamt Arnóri Hannibalssyni til náms í Moskvu 1954. Í sjálfsævisögunni segir hann frá því (bls. 110), að á útmánuðum 1956 hafi tveir römmustu stalínistar Íslands, Kristinn E. Andrésson, forstjóri bókafélagsins Máls og menningar, og Eggert Þorbjarnarson, framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, komið til Moskvu í því skyni að sitja þing kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. Þeir Árni og Arnór hafi heimsótt þá á gistihús og talið borist að ömurlegu hlutskipti Eystrasaltsþjóðanna þriggja, Eistlendinga, Letta og Litháa. Kremlverjar höfðu hertekið lönd þeirra, barið niður alla andstöðu og flutt marga frammámenn í gripavögnum til Síberíu. Eggert hafi neitað að trúa frásögnum íslensku stúdentanna um ástandið í Eystrasaltslöndum, en Kristinn tekið þeim betur, enda hafi hann fengið svipaðar upplýsingar frá íslenskum sjómanni, sem siglt hafi á Ventspils í Lettlandi. „Já, ég veit, að þetta er rétt hjá strákunum,“ sagði Kristinn.

Árni bætir við: „Ég segi frá þessu hér, m. a. vegna þess að ekkert er eins einfalt og það lítur út fyrir að vera í skrifum manna eins og Hannesar H. Gissurarsonar og Þórs Whitehead.“ En hvað er Árni í rauninni að segja með þessari sögu? Hann er að segja, að Kristinn hafi gert sér að minnsta kosti nokkra grein fyrir kúguninni í Ráðstjórnarríkjunum. Samt barðist Kristinn ótrauður alla ævi fyrir því að koma á svipuðu kerfi á Íslandi og stóð þar eystra. Skoðun hans breyttist ekki hið minnsta eftir þetta samtal. Yrði Sovét-Ísland, óskalandið, ekki til með góðu, þá með illu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. júlí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir