Laugardagur 07.08.2021 - 05:53 - Rita ummæli

Skammt öfga í milli

Undanfarið hef ég velt fyrir mér tengslum fasisma og annarra stjórnmálastefna, en í nýlegri ritgerð reyna þau Ragnheiður Kristjánsdóttir og Pontus Järvstad að spyrða saman Sjálfstæðisflokkinn og íslenska fasista á fjórða áratug síðustu aldar. Auðvitað voru þjóðernisstefna og andkommúnismi frá öndverðu snarir þættir í stefnu Sjálfstæðisflokksins, svo að sumir forystumenn hans höfðu samúð með Þjóðernishreyfingu Íslendinga, sem stofnuð var 1933. Hún var ekki heldur hreinræktuð fasistahreyfing. En íslenskur fasistaflokkur, sem kallaði sig Flokk þjóðernissinna, spratt einmitt upp í ársbyrjun 1934 í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn, eftir að tveir menn úr Þjóðernishreyfingunni höfðu tekið sæti á lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík. Hlaut Flokkur þjóðernissinna sáralítið fylgi þá og í þingkosningunum eftir það, bauð síðast fram í bæjarstjórnarkosningum 1938 og lognaðist síðan út af.

Fróðleg bók kom fyrir mörgum árum út í Noregi eftir sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen, sem komið hefur hingað til lands og haldið fyrirlestra. Hún heitir Fra Marx til Quisling og er um fimm norska sósíalista og kommúnista, sem gerðust fasistar og gengu í lið með Quisling, Eugène Olaussen, Sverre Krogh, Halvard Olsen, Håkon Meyer og Albin Eines. Voru þeir allir í forystusveit norskra vinstri manna. Sinnaskipti þeirra urðu fyrir hernám Þjóðverja, svo að ekki má skýra þau með hentistefni einni saman. Olaussen var ritstjóri sósíalistablaðsins Klassekampen 1911–1921, og árið 1945 skrifaði hann í endurminningum sínum: „Það er mér ánægja að vita til þess, að margir minna bestu og tryggustu samstarfsmanna í Klassekampen hafa nú fundið hinn eina sanna sósíalisma og að við höfum á þjóðlegum, norskum grundvelli fengið að sjá hið besta í hugmyndum okkar framkvæmt, hreinsað af öllu gyðingagjalli úr marxismanum.“

Í bók sinni gerir Sørensen skilmerkilega grein fyrir því, hvað í fasismanum laðaði þessa gömlu sósíalista að. Þeir trúðu því allir, að borgaralegt frelsi væri týnt og tröllum gefið. Þeir höfnuðu því, sem þeir töldu tvær myndir kapítalismans, ríkiskapítalisma Stalíns og auðræði Vesturlanda. Verkamenn hverrar þjóðar ættu að sameinast, en ekki öreigar allra landa. Viðkvæði þeirra var hið sama og Hitlers: Almannahag ofar einkahag.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. júlí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir