Flestar ritdeilur, sem háðar eru á Íslandi, líða út af, þegar þátttakendurnir þreytast, í stað þess að þeim ljúki með niðurstöðu. Svo er þó ekki um tvær ritdeilur, sem ég þekki til. Aðra háðu þeir Jón Ólafsson heimspekingur og Þór Whitehead sagnfræðingur á síðum tímaritsins Sögu árin 2007–2009. Í Moskvu hafði Jón fundið skjal, sem hann taldi benda til, að stofnun Sósíalistaflokksins haustið 1938 hefði verið andstæð vilja Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista. Þetta var minnisblað frá einum starfsmanni Kominterns til forseta sambandsins, þar sem hann lýsti efasemdum um, að skynsamlegt væri að kljúfa Alþýðuflokkinn. Þór andmælti þessu, enda væri slíkt innanhússplagg ekki nauðsynlega opinber stefna sambandsins, og hvergi hefði komið fram annars staðar, að Kremlverjar hefðu verið mótfallnir stofnun Sósíalistaflokksins. Ég fann síðan í skjalasafni Sósíalistaflokksins bréf frá forseta Alþjóðasambands ungra kommúnista til Æskulýðsfylkingarinnar, sambands ungra sósíalista, þar sem hann lýsti yfir sérstakri ánægju með stofnun sambandsins og stefnuskrá. Óhugsandi er, að þetta bréf hefði verið sent, hefði Komintern verið mótfallið stofnun Sósíalistaflokksins. Ritdeilunni var lokið. Þetta reyndist vera heilaspuni Jóns.
Seinni ritdeiluna háðum við Halldór Guðmundsson, umsjónarmaður Hörpu. Hann hélt því fram, að verk Halldórs Laxness hefðu á sínum tíma hætt að koma út í Bandaríkjunum, vegna þess að íslenskir ráðamenn (Bjarni Benediktsson) og bandarískir erindrekar hefðu unnið gegn því. Ég benti á, að engin skjöl hefðu fundist um þetta, þótt vissulega hefði einn bandarískur stjórnarerindreki velt því fyrir sér í skýrslu, hvort ekki yrði álitshnekkir að því fyrir Laxness að verða uppvís að undanskoti undan skatti af tekjum sínum í Bandaríkjunum og broti á gjaldeyrisskilareglum. Sýndi þetta, hversu lítt bandarískir erindrekar þekktu Íslendinga, sem hefðu flestir gert hið sama í sporum Laxness. Jafnframt gat Laxness þakkað sínum sæla fyrir, að gjaldeyriseftirlit virðist um þær mundir hafa verið mildara en hin síðari ár, þegar Már Guðmundsson seðlabankastjóri sigaði lögreglunni á útflutningsfyrirtæki við hinn minnsta grun um brot á gjaldeyrisskilareglum. En síðan hefur Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur fundið í skjalasafni Alfreds Knopfs, útgefanda Laxness í Bandaríkjunum, álitsgerðir bókmenntaráðunauta hans, sem taka af öll tvímæli um, að ekki var hætt að gefa út bækur Laxness af stjórnmálaástæðum, heldur vegna þess að Knopf og ráðunautar hans töldu, að þær myndu ekki seljast. Ritdeilunni var lokið. Þetta reyndist vera hugarburður Halldórs.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. júlí 2021.)
Rita ummæli