Hér hef ég rifjað upp, að Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu varð þegar í febrúar 2009 vanhæf, eftir að einn nefndarmaður tilkynnti í bandarísku stúdentablaði, hverjar niðurstöður hennar yrðu. Óháð því má greina ýmsa galla á vinnubrögðum nefndarinnar.
Af hverju voru yfirheyrslur nefndarinnar ekki opinberar og sjónvarpað beint frá þeim? Og af hverju eru gögn nefndarinnar lokuð inni? Nefndin ákvað ein, hvað birta skyldi úr gögnunum. Ég hef kynnt mér nokkur þeirra og séð margt merkilegt, sem nefndin sleppti.
Mjög orkaði tvímælis, að nefndin fékk friðhelgi að lögum. Borgararnir voru sviptir rétti sínum til að bera undir dómstóla, ef þeir töldu hana hafa á sér brotið. Jafnframt var þeim bannað að skjóta hugsanlegum brotum til Umboðsmanns Alþingis.
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að nokkrir ráðherrar og embættismenn hefðu gerst sekir um vanrækslu. En sú niðurstaða var um vanrækslu í skilningi laga nr. 142/2008, sem samþykkt voru eftir bankahrunið. Lög eiga ekki að vera afturvirk.
Sá munur var að lögum á bankaráði Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins, að bankaráðið markaði ekki stefnu bankans í efnahagsmálum, heldur bankastjórnin ein, en forstjóri Fjármálaeftirlitsins átti að bera allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórn. Hvers vegna tók nefndin ekki ábyrgð stjórnar Fjármálaeftirlitsins til rækilegrar rannsóknar?
Rannsóknarnefndin horfði nær alveg fram hjá því, að bankarnir uxu hratt árin 2002–2005, en óverulega eftir það. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins, formaður bankastjórnar Seðlabankans og forsætisráðherra hófu allir störf, eftir að bankarnir voru fastir í stærðargildrunni.
Rannsóknarnefndin sakaði forsætisráðherra um að hafa haldið upplýsingum frá bankamálaráðherranum. En það var ekki ákvörðun hans að gera það, heldur formanns samstarfsflokksins.
Rannsóknarnefndin horfði nær alveg fram hjá því, að bankarnir féllu vegna alþjóðlegrar lausafjárkreppu, þar sem Íslandi var neitað um þá aðstoð, sem aðrir fengu. Ekki var til dæmis leitað skýringa á því, að breska ríkisstjórnin bjargaði haustið 2008 öllum öðrum bönkum landsins en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, en í uppgjöri þeirra beggja síðar meir kom fram, að þeir áttu vel fyrir skuldum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. september 2021.)
Rita ummæli