Laugardagur 18.09.2021 - 09:30 - Rita ummæli

Hvers vegna gelti hundurinn ekki?

Í smásögu um leynilögreglumanninn Sherlock Holmes, Silver Blaze, sem hlotið hefur heitið Verðlauna-Blesi á íslensku, hverfur verðmætur veðreiðahestur um nótt. Holmes hefur orð á því við fákænan lögregluþjón, að framferði varphundsins í hesthúsinu um nóttina hafi verið merkilegt. En hundurinn gerði ekkert um nóttina, segir lögregluþjónninn undrandi. Það er einmitt það, sem er sérstakt, svarar Holmes. Skýringin var auðvitað, að hundurinn þekkti manninn, sem rændi hestinum.

Mér datt þessi saga í hug um daginn, þegar ég rifjaði upp skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið 2008. Þar er ekki síður merkilegt, hverju er sleppt, en hvað er tekið með. Af mörgu er að taka, en eitt dæmi er, að þar er ekki sagt efnislega frá fundi, sem fjórir ráðherrar héldu um vanda bankanna 7. ágúst 2008 með fjórum hagfræðingum, Friðrik Má Baldurssyni, Gauta B. Eggertssyni, Má Guðmundssyni og Jóni Þór Sturlusyni.

Þar lögðu þeir Friðrik Már, Gauti og Már allir til (samkvæmt minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur), að ríkið reyndi að bjarga bönkunum. Þeir voru um þetta ósammála seðlabankastjórunum þremur, sem töldu fall bankanna líklegt og þá væntanlega óviðráðanlegt, en ríkið yrði þá aðallega að lágmarka skuldbindingar sínar og gæta hags innstæðueigenda. Upplýsingar um þessar fráleitu hugmyndir hagfræðinganna komu ekki fram fyrr en í landsdómsmálinu 2012.

Hvers vegna var ekki rætt um þessar tillögur í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar frá 2010, þó að fundarins sé getið í 6. bindi? Vildu nefndarmenn hlífa hagfræðingunum við því að birta þessar upplýsingar, sem voru óþægilegar fyrir þá í ljósi eftirleiksins? Gauti hafði skrifað í blöð til varnar einum nefndarmanninum, Sigríði Benediktsdóttur, eftir að hún hafði í upphafi rannsóknarinnar tilkynnt í bandarísku stúdentablaði, að kenna mætti „tómlátu andvaraleysi“ Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um bankahrunið, og þannig orðið vanhæf til að rannsaka það. Már var skipaður seðlabankastjóri í júní 2009 og réð Sigríði í bankann 2012. Þarf einhvern Sherlock Holmes til að skýra málið?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. september 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir