Vinstrið hefur víða sótt í sig veðrið þrátt fyrir herfilegan ósigur í sögulegum átökum tuttugustu aldar. Hvað veldur?
Ein skýringin er, að ekki virðist lengur til sameiginlegur óvinur, sem sameinast megi gegn, eins og alræðisstefna nasista og kommúnista var.
Önnur skýringin tengist hinni fyrstu. Sósíalisminn hafði hvarvetna mistekist hrapallega, og smám saman tóku vinstri flokkar upp svipaða stefnu og sigurvegarar Kalda stríðsins, Ronald Reagan og Margrét Thatcher. Deilunni um einkarekstur og ríkisrekstur lauk með sigri hægrisins, sem var þá um leið svipt sínu helsta baráttumáli.
Stundum hefur verið talað af lítilsvirðingu um átakastjórnmál. En þau áttu sér rót í raunverulegum átökum, jafnt um ógnina frá alræðisríkjum og ágreining um skipan atvinnumála. Í stað þeirra hafa ekki komið sáttastjórnmál, heldur merkimiðastjórnmál (identity politics). Mestu máli er talið skipta, að kjósendur finni til samkenndar með valdsmönnum, en ekki að vald þeirra takmarkist af föstum reglum, svo að einstaklingarnir geti notið sín.
Næstu áratugina eftir endalok marxismans komu enn fremur í ljós áhrifin af tvenns konar þróun, sem átt hafði sér stað þegjandi og hljóðalaust. Í fyrsta lagi hefur þeim snarfjölgað, sem háðir eru ríkinu um afkomu sína, starfsfólki og styrkþegum, svo að þeir mynda jafnvel víða meiri hluta kjósenda. Einkageirinn hefur vissulega þrifist vel, en opinberi geirinn hefur vaxið hratt.
Í öðru lagi eru marxistarnir ekki horfnir, þótt marxisminn sé dauður. Þeir hafa aðeins skipt um merkimiða. Í stað borgarastéttarinnar er komið feðraveldi og í stað stéttabaráttu umhverfisvá. Nýmarxistar, sem iðka gremjufræði (grievance studies), hafa náð undirtökum í skólum og fjölmiðlum. Þeir hafa alið upp nýja kynslóð, sem helst hugsar um að semja óskalista, ekki skapa verðmæti.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. september 2021.)
Rita ummæli