Laugardagur 16.10.2021 - 09:33 - Rita ummæli

Kaupmaðurinn frá Alexandríu

Í erindi á ráðstefnu um löggæslu og afbrotavarnir á Akureyri 6. október 2021 hélt ég því fram, að löggjafinn ætti að einbeita sér að þeim brotum, sem sköðuðu aðra, svo sem ofbeldi og svikum, en láta þær athafnir manna afskiptalausar, sem ekki ættu sér fórnarlömb, þar á meðal innherjaviðskipti. Ég fór með dæmisögu frá heilögum Tómasi af Akvínas. Hungursneyð hafði verið á Rhodos, þegar kaupmaður frá Alexandríu kom þangað með skip drekkhlaðið korni. Hann veit, að fleiri kaupmenn eru á leiðinni, því að hann sá seglin á skipum þeirra bera við sjóndeildarhringinn. Á hann að segja eyjarskeggjum frá vitneskju sinni, þótt það leiði til þess, að hann geti ekki selt korn sitt háu verði?

Heimspekingar fornaldar deildu um þetta. Díógenes frá Babílon kvað hann ekki þurfa að segja frá þessu, enda væri sitt hvað að blekkja kaupendur um gæði vöru og að veita þeim ekki upplýsingar um ýmis atriði, sem haft gætu áhrif á verð vörunnar. Antípater frá Tarsos andmælti þessu með þeim rökum, að kaupmaðurinn væri samborgari eyjarskeggja og mætti þess vegna ekki fénýta sér þessar upplýsingar. Rómverski mælskusnillingurinn Cíceró var sammála Antípater. Heilagur Tómas taldi hins vegar eins og Díógenes, að kaupmaðurinn þyrfti ekki að segja viðskiptavinum sínum frá þeim væntanlegu keppinautum, sem hann sá á leiðinni. Það væri ef til vill rausnarlegt, en réttlætið krefðist þess ekki.

Hér er kjarni málsins, að eyjarskeggjar voru engin fórnarlömb. Fráleitt var að telja muninn á hinu háa verði, sem kaupmaðurinn gat selt korn á, og hinu lága verði, eftir að aðrir kaupmenn voru komnir, sérstakt tjón eyjarskeggja. Kaupmaðurinn var að veita þjónustu, ekki skaða viðskiptavini sína. Auk þess var það aðeins tilgáta, að fleiri kaupmenn væru á leiðinni. Lífið er undirorpið óvissu. Þetta sjónarmið á líka við um innherjaviðskipti (þar sem ekki er beitt svikum eða blekkingum). Enginn skaðast á þeim. Rangt er að draga lágt verð á hlutabréfum, sem öllum stendur til boða á fimmtudegi, frá háu verði á sömu hlutabréfum á mánudegi, og telja það tjón annarra hluthafa en þess eins, sem sá verðhækkunina fyrir og keypti hlutabréf á fimmtudegi. Sama er að segja um fasteignaviðskipti. Ég sel þér eign á 90 milljónir, og þremur mánuðum seinna selur þú öðrum eignina á 100 milljónir. Tíu milljónirnar eru ekki tjón mitt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. október 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir