Laugardagur 15.01.2022 - 09:48 - Rita ummæli

Rússar loka Memorial-stofnuninni

Hæstiréttur Rússlands samþykkti 28. desember síðast liðinn kröfu ríkissaksóknara landsins um að loka Memorial-stofnuninni rússnesku, en tilgangur hennar er að halda á lofti minningu fórnarlamba kommúnismans og annarra alræðishreyfinga tuttugustu aldar. Var það haft að yfirvarpi, að stofnunin væri tengd erlendum aðilum. Saksóknari kvað stofnunina líka halda því ranglega fram, að Ráðstjórnarríkin hefðu verið hryðjuverkaríki, jafnframt því sem hún dreifði rógi um Föðurlandsstríðið mikla 1941–1945.

Memorial-stofnunin talar fyrir munn þeirra, sem varnað hefur verið máls. Nú reyna hins vegar Pútín og samstarfsmenn hans að falsa söguna, hylja slóð glæpanna. Ráðstjórnarríkin voru einmitt hryðjuverkaríki. Það var eðlismunur á einræði Rússakeisara og alræði kommúnista. Á tímabilinu frá 1825 til 1905 var 191 maður tekinn af lífi af stjórnmálaástæðum í Rússaveldi. Kommúnistar drápu margfalt fleiri fyrstu fjóra mánuðina eftir valdarán sitt í nóvember 1917. Talið er, að samtals hafi um tuttugu milljónir manna týnt lífi í Ráðstjórnarríkjunum af völdum þeirra, auk þess sem tugmilljónir manna hírðust árum saman við illan aðbúnað í þrælakistum norðan heimsskautsbaugs.

Það er síðan umhugsunarefni, að Rússar skuli kalla þátttöku sína í seinni heimsstyrjöld „Föðurlandsstríðið mikla“. Þess ber að minnast, að það var griðasáttmáli Stalíns og Hitlers, sem hleypti styrjöldinni af stað, en hann var undirritaður í Moskvu 23. ágúst 1939. Fram í júní 1941, þegar Hitler rauf sáttmálann og réðst á Rússland, voru þeir Stalín bandamenn. Eftir að Hitler lagði Frakkland að velli sumarið 1940, börðust Bretar einir (ásamt samveldislöndunum) gegn alræðisstefnunni. Þá voru aðeins sex lýðræðisríki eftir í Evrópu, Írland, Bretland, Ísland, Svíþjóð, Finnland og Sviss.

Böðlarnir mega ekki fá að drepa fórnarlömb sín tvisvar, í seinna skiptið með þögninni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. janúar 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir