Þeir samkennarar mínir, sem gera lítið úr löndum sínum erlendis, eiga sér ýmsa forvera. Þorlákur Skúlason biskup skrifaði í bréfi til Óla Worms 30. ágúst 1625: „Ég hef af aumum örlögum hrakist burt á þennan útkjálka og verð að lifa innan um ómenntað, óþægilegt og dónalegt fólk, hin eina huggun mín er að hugsa um það, hve lífið er stutt, og um tilkomandi samvistir vorar á himnum.“ Hundrað árum síðar sagði Jón Ólafsson Grunnvíkingur landslýð vera óróasaman „með óþokkamál, og eyðir sjálfum sér, yfrið ósamþykkt og sundurlynt fólk, ágjarnt líka, óhreinlynt og illa geðjað. Þeir góðu menn eru miklu færri og fá engu ráðið.“
Nokkru áður en Jón Grunnvíkingur samdi athugasemd sína á öndverðri átjándu öld var alnafni hans, Jón Ólafsson Indíafari, staddur á krá í Kaupmannahöfn, þar sem maður einn úthúðaði Íslendingum. Jón spurði, hvort hann hefði komið til Íslands og talaði því af eigin raun. Maðurinn sagðist aldrei myndu fara þangað norður, og greiddi Jón honum að bragði tvö væn kjaftshögg.
Þeir Þorlákur Skúlason og Jón Grunnvíkingur hafa eflaust talið sig heimsborgara, en um þá er mælt, að þeir séu vinveittir öllum löndum nema sínu eigin. Ég tel hins vegar ýmislegt til í lýsingu Hegels gamla á því, hvernig heimsandinn bræðir með sér hugmyndir. Fyrst er sett fram afstaða, sem síðan leiðir til andstöðu, en loks renna hinar ólíku hugmyndir saman og hefja sig um leið upp í niðurstöðu. Í stað þess að greiða þeim, sem níða niður Ísland, kjaftshögg að hætti Jóns Indíafara ættum við einmitt að reyna að sameina þjóðrækni og víðsýni, gerast þjóðræknir heimsborgarar, læra það af öðrum þjóðum, sem þær gera betur en við, en vera þó stolt af þeim góða árangri, sem við höfum náð á mörgum sviðum. Stolt er ekki dramb.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. janúar 2022.)
Rita ummæli