Laugardagur 29.01.2022 - 09:51 - Rita ummæli

Lausnir Úkraínudeilunnar

Einn vandinn er, að í Austur-Úkraínu vilja rússneskumælandi menn vera í Rússlandi, en úkraínskumælandi menn vera í Úkraínu. Hér kemur danska lausnin til greina. Þjóðverjar tóku Slésvík af Dönum 1864, en í Norður-Slésvík var fjöldi manns dönskumælandi. Eftir ósigur Þjóðverja í heimsstyrjöldinni fyrri var íbúum svæðisins leyft að ráða hlutskipti sínu. Norður-Slésvík var skipt í tvo hluta. Í nyrðri hlutanum greiddu 75% kjósenda atkvæði með því að sameinast Danmörku. Í syðri hlutanum greiddu 80% kjósenda atkvæði með því að vera áfram í Þýskalandi. Farið var eftir þessum úrslitum og landamærin færð til friðsamlega. Mætti ekki færa landamæri Úkraínu og Rússlands til á sama hátt með samþykki og atbeina allra aðila?

Annar vandi er, að á Krímskaga kann meiri hluti íbúanna að vilja vera í Rússlandi, eins og Pútín heldur fram. En minnihlutahópar Úkraínumanna og Tatara búa líka á skaganum og eiga sinn rétt. Hér kemur svissneska lausnin til greina: að skipta Krím upp í sjálfstjórnareiningar, eins og kantónurnar í Sviss, og koma þannig í veg fyrir, að meiri hluti geti beitt minni hluta ofríki.

Þriðji vandinn er, að Úkraína vill vera vestrænt ríki, en Kremlverjar mega ekki heyra á það minnst, að það gangi í Evrópusambandið eða Atlantshafsbandalagið. Hér kemur íslenska lausnin til greina: að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu án þess að ganga í Evrópusambandið. Með því væru kostir frjálsra viðskipta og alþjóðlegrar verkaskiptingar nýttir án víðtækra stjórnmálaskuldbindinga. Því er að vísu haldið fram, að EES-ríkin hafi ólíkt ESB-ríkjunum engin áhrif á löggjöf um Evrópumarkaðinn. En í ESB eru smáríkin líka áhrifalaus. Frakkar og Þjóðverjar ráða þar öllu. Úkraína er eins og Ísland á jaðri Evrópu og á því frekar heima í EES en ESB.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir