Árið 1961 komu með stuttu millibili út tvö rit eftir Matthías Johannessen, skáld og ritstjóra. Skömmu eftir útkomu hins síðari spurði Tómas Guðmundsson skáld hæversklega í bókabúð: „Hefur nokkurt rit eftir Matthías Johannessen komið út í dag?“ Þessi saga rifjaðist nýlega upp fyrir mér, því að í árslok 2021 gekk ég frá tveimur ritum, sem dreifa á innan tíðar í bókabúðir, en þau verða líka aðgengileg á Netinu.
Annað heitir Bankahrunið 2008 og er 64 blaðsíður. Það er útdráttur á íslensku úr skýrslu minni á ensku fyrir fjármálaráðuneytið, sem ég skilaði 2018. Þar er meginniðurstaðan, að beiting bresku hryðjuverkalaganna á Íslendinga 8. október 2008 hafi í senn verið ruddaleg og óþörf, því að breska fjármálaeftirlitið hafði þegar girt fyrir hugsanlega ólöglega fjármagnsflutninga með tilskipun til útibús Landsbankans 3. október, en yfirlýstur tilgangur aðgerðarinnar var einmitt að koma í veg fyrir slíka flutninga. Ein skýring mín á hörku Breta er, að þeir Gordon Brown og Alistair Darling eru báðir Skotar, og þeir vildu sýna kjósendum sínum, hversu varasamt sjálfstæði Skotlands væri.
Hitt ritið er á ensku. Það heitir Communism in Iceland: 1918–1998 og er 160 blaðsíður. Ég skrifaði það að áeggjan prófessors Stéphane Courtois, ritstjóra Svartbókar kommúnismans, og studdist þá við bók mína á íslensku, sem kom út 2011, Íslenska kommúnista 1918–1998. Þar er meginniðurstaðan, að hreyfing kommúnista og síðan vinstri sósíalista hafi haft nokkra sérstöðu í íslenskum stjórnmálum, því að hún hafi tekið við fyrirmælum og fjármagni frá alræðisríki og ekki heldur verið með öllu frábitin beitingu ofbeldis. Sú forvitnilega spurning vaknar þá, hvers vegna þessi hreyfing var allt frá 1942 til 1987 hér fylgisælli en hreyfing jafnaðarmanna öfugt við það, sem gerist í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Svar mitt er, að eðlilegast sé að bera Ísland saman við Finnland. Þetta voru fátækustu löndin og nýjustu ríkin í þessum heimshluta, svo að stjórnmálamenning var óþroskaðri en á öðrum Norðurlöndum og jarðvegur frjórri fyrir byltingarstefnu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. febrúar 2022.)
Rita ummæli