Laugardagur 05.02.2022 - 09:52 - Rita ummæli

Tvö ný rit mín

Árið 1961 komu með stuttu millibili út tvö rit eftir Matthías Johannessen, skáld og ritstjóra. Skömmu eftir útkomu hins síðari spurði Tómas Guðmundsson skáld hæversklega í bókabúð: „Hefur nokkurt rit eftir Matthías Johannessen komið út í dag?“ Þessi saga rifjaðist nýlega upp fyrir mér, því að í árslok 2021 gekk ég frá tveimur ritum, sem dreifa á innan tíðar í bókabúðir, en þau verða líka aðgengileg á Netinu.

Annað heitir Bankahrunið 2008 og er 64 blaðsíður. Það er útdráttur á íslensku úr skýrslu minni á ensku fyrir fjármálaráðuneytið, sem ég skilaði 2018. Þar er meginniðurstaðan, að beiting bresku hryðjuverkalaganna á Íslendinga 8. október 2008 hafi í senn verið ruddaleg og óþörf, því að breska fjármálaeftirlitið hafði þegar girt fyrir hugsanlega ólöglega fjármagnsflutninga með tilskipun til útibús Landsbankans 3. október, en yfirlýstur tilgangur aðgerðarinnar var einmitt að koma í veg fyrir slíka flutninga. Ein skýring mín á hörku Breta er, að þeir Gordon Brown og Alistair Darling eru báðir Skotar, og þeir vildu sýna kjósendum sínum, hversu varasamt sjálfstæði Skotlands væri.

Hitt ritið er á ensku. Það heitir Communism in Iceland: 1918–1998 og er 160 blaðsíður. Ég skrifaði það að áeggjan prófessors Stéphane Courtois, ritstjóra Svartbókar kommúnismans, og studdist þá við bók mína á íslensku, sem kom út 2011, Íslenska kommúnista 1918–1998. Þar er meginniðurstaðan, að hreyfing kommúnista og síðan vinstri sósíalista hafi haft nokkra sérstöðu í íslenskum stjórnmálum, því að hún hafi tekið við fyrirmælum og fjármagni frá alræðisríki og ekki heldur verið með öllu frábitin beitingu ofbeldis. Sú forvitnilega spurning vaknar þá, hvers vegna þessi hreyfing var allt frá 1942 til 1987 hér fylgisælli en hreyfing jafnaðarmanna öfugt við það, sem gerist í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Svar mitt er, að eðlilegast sé að bera Ísland saman við Finnland. Þetta voru fátækustu löndin og nýjustu ríkin í þessum heimshluta, svo að stjórnmálamenning var óþroskaðri en á öðrum Norðurlöndum og jarðvegur frjórri fyrir byltingarstefnu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. febrúar 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir