Laugardagur 12.02.2022 - 09:52 - Rita ummæli

Saga sigurvegaranna?

Á Söguþingi 2012 kvartaði Skafti Ingimarsson undan því, að ég hefði í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, verið að skrifa sögu sigurvegaranna í Kalda stríðinu og afgreitt íslenska kommúnista (og vinstri sósíalista) sem erindreka erlends valds. Skilja þyrfti íslenska kommúnista í stað þess að fordæma þá. Þetta er hæpið. Skökku skyti við, ef sagnfræðingar færu að skrifa sögu seinni heimsstyrjaldarinnar af skilningi og samúð með málstað nasista, enda komst Nürnberg-dómstólllinn að þeirri niðurstöðu, að samtök þeirra hefðu verið glæpsamleg.

Þó er sannleikskjarni í kvörtun Skafta. Auðvitað þarf að skýra, hvers vegna íslenskir kommúnistar náðu yfirhöndinni í baráttu við jafnaðarmenn árin 1937–1942 ólíkt því, sem gerðist í Svíþjóð, Danmörku og Noregi, þar sem jafnaðarmenn voru miklu öflugri en kommúnistar. Ég reyni þetta í nýrri bók minni, Communism in Iceland, 1918–1998, og hef raunar áður vikið að málinu hér í Fróðleiksmolum.

Ein algeng skýring er hæfir leiðtogar. En ég fæ ekki séð, að leiðtogar kommúnista, Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson, hafi verið miklu hæfari en leiðtogar Alþýðuflokksins á þessum tíma, Stefán Jóhann Stefánsson, Haraldur Guðmundsson og Emil Jónsson, þótt eflaust hafi það spillt fyrir Alþýðuflokksmönnunum þremur, að þeir gegndu allir háum embættum, á meðan kommúnistarnir þrír lögðu sig alla í baráttuna.

Önnur skýring er afleikir andstæðinganna: Vinstri jafnaðarmenn á Íslandi hafi undir forystu Héðins Valdimarssonar verið einu norrænu jafnaðarmennirnir, sem tóku samfylkingarboði kommúnista upp úr 1935, en þegar Héðinn hafi viljað snúa aftur í árslok 1939, hafi Alþýðuflokkurinn ekki viljað taka við honum. Benjamín Eiríksson, vinur Héðins, hélt þessu fram við mig og benti á, að sænskir jafnaðarmenn hefðu fagnað endurkomu þeirra Zeths Höglunds og Fredriks Ströms, eftir að þeir misstu trúna á kommúnismann. Eflaust var Héðinn of trúgjarn og Alþýðuflokksforystan of óbilgjörn, en ég held samt, að þessi mistakakenning dugi lítt, enda gerðu leiðtogar kommúnista margvísleg mistök líka. Fleiri skýringa er þörf, þótt eitthvað sé til í þessum tveimur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. febrúar 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir