Svo vill til, að ég á afmæli í dag, er orðinn 69 ára. Á slíkum dögum er tilefni til að staldra við og hugleiða lífið, tímabilið milli fæðingar og dauða, enda munum við ekki eftir fæðingunni og þurfum að þola dauðann. Hvað er eftirsóknarverðast í lífinu? Þegar ég hef rætt um þessa spurningu við nemendur mína í stjórnmálaheimspeki, hef ég raðað verðmætum lífsins svo, að efst og fremst væri góð heilsa, andleg ekki síður en líkamleg, þá traustir fjölskylduhagir og síðan blómlegur fjárhagur. Þeir, sem búa við góða andlega heilsu, eru öðrum líklegri til að mynda sterk fjölskyldubönd, eignast vini og ástvini, og þeir, sem búa við góða líkamlega heilsu, geta oftast aflað sér efnislegra gæða, að minnsta kosti í vestrænum velsældarríkjum.
Stjórnmálaskörungurinn íslenski mælti viturlega, þegar hann gaf barnabarni sínu það ráð að eyða ævinni ekki í að sjá eftir eða kvíða fyrir. Hitt er annað mál, að við ættum að leitast við að læra af mistökum okkur og miðla öðrum af þeirri reynslu. Við ættum líka jafnan að búa okkur undir hið versta, þótt við leyfðum okkur um leið að vona hið besta. Þegar ég horfi um öxl, sé ég til dæmis, að ég hefði átt að nýta tímann í háskóla betur, fara strax í það nám, sem ég hafði áhuga á, og læra fleiri tungumál. Nýtt tungumál er eins og lykill að stórum sal með ótal fjársjóðum. Ég hefði líka átt að sneiða hjá ýmsum tilgangslausum erjum, þótt auðvitað væri rétt að berjast gegn alræðisöflunum, sem enn eru á kreiki, þótt þau væru vissulega öflugri fyrir 1990.
Ég kvíði ekki fyrir framtíðinni, en við Vesturlandabúar verðum að skilja, að hættur steðja að. Tímabil frjálsra alþjóðaviðskipta í skjóli Bandaríkjahers hefur verið einstakt framfaraskeið. Lífskjör hafa batnað stórkostlega. En einræðisherrarnir í Moskvu og Peking hrista um þessar mundir vopn sín, svo að brakar í. Á þá duga engin vettlingatök. Og á Vesturlöndum vilja sumir neyða eigin þröngsýni, ofstæki og umburðarleysi upp á okkur, um leið og þeir reyna að seilast með aðstoð ríkisvaldsins í vasa okkar eftir fjármunum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. febrúar 2022.)
Rita ummæli