Laugardagur 19.02.2022 - 09:53 - Rita ummæli

Hugleiðingar á afmælisdegi

Svo vill til, að ég á afmæli í dag, er orðinn 69 ára. Á slíkum dögum er tilefni til að staldra við og hugleiða lífið, tímabilið milli fæðingar og dauða, enda munum við ekki eftir fæðingunni og þurfum að þola dauðann. Hvað er eftirsóknarverðast í lífinu? Þegar ég hef rætt um þessa spurningu við nemendur mína í stjórnmálaheimspeki, hef ég raðað verðmætum lífsins svo, að efst og fremst væri góð heilsa, andleg ekki síður en líkamleg, þá traustir fjölskylduhagir og síðan blómlegur fjárhagur. Þeir, sem búa við góða andlega heilsu, eru öðrum líklegri til að mynda sterk fjölskyldubönd, eignast vini og ástvini, og þeir, sem búa við góða líkamlega heilsu, geta oftast aflað sér efnislegra gæða, að minnsta kosti í vestrænum velsældarríkjum.

Stjórnmálaskörungurinn íslenski mælti viturlega, þegar hann gaf barnabarni sínu það ráð að eyða ævinni ekki í að sjá eftir eða kvíða fyrir. Hitt er annað mál, að við ættum að leitast við að læra af mistökum okkur og miðla öðrum af þeirri reynslu. Við ættum líka jafnan að búa okkur undir hið versta, þótt við leyfðum okkur um leið að vona hið besta. Þegar ég horfi um öxl, sé ég til dæmis, að ég hefði átt að nýta tímann í háskóla betur, fara strax í það nám, sem ég hafði áhuga á, og læra fleiri tungumál. Nýtt tungumál er eins og lykill að stórum sal með ótal fjársjóðum. Ég hefði líka átt að sneiða hjá ýmsum tilgangslausum erjum, þótt auðvitað væri rétt að berjast gegn alræðisöflunum, sem enn eru á kreiki, þótt þau væru vissulega öflugri fyrir 1990.

Ég kvíði ekki fyrir framtíðinni, en við Vesturlandabúar verðum að skilja, að hættur steðja að. Tímabil frjálsra alþjóðaviðskipta í skjóli Bandaríkjahers hefur verið einstakt framfaraskeið. Lífskjör hafa batnað stórkostlega. En einræðisherrarnir í Moskvu og Peking hrista um þessar mundir vopn sín, svo að brakar í. Á þá duga engin vettlingatök. Og á Vesturlöndum vilja sumir neyða eigin þröngsýni, ofstæki og umburðarleysi upp á okkur, um leið og þeir reyna að seilast með aðstoð ríkisvaldsins í vasa okkar eftir fjármunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. febrúar 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir