Þegar Pútín Rússlandsforseti reynir að réttlæta yfirgang sinn í Úkraínu, heldur hann fram margvíslegum firrum um sögu Rússlands. Hann er ekki einn um það. Nokkrir íslenskir fræðimenn hafa flutt svipaðar söguskoðanir, eins og ég hef áður rakið á þessum vettvangi. Til dæmis skrifuðu sagnfræðingarnir Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson í Nýjum tímum, kennslubók fyrir framhaldsskóla (bls. 227), að Stalín hefði framkvæmt samyrkjustefnu sína „í óþökk mikils hluta bænda“. Annað eins vanmæli (understatement) er vandfundið. Sannleikurinn er sá, að Stalín knúði bændur til samyrkju með því að svelta til bana sex milljónir manns í Úkraínu og Suður-Rússlandi, og fjöldi bænda og skylduliðs þeirra var líka fluttur nauðugur til Síberíu. Þetta situr enn í Úkraínumönnum, þótt Pútín reyni að gera lítið úr því.
Í bókinni Appelsínum frá Abkasíu eftir Jón Ólafsson heimspeking, sem út kom 2012, segir um Vetrarstríðið (bls. 285). „Það var stríð Rússa við Finna en þeir fyrrnefndu réðust yfir landamærin haustið 1939 til að ná af Finnum þeim hluta Karelíu sem hafði fallið þeim í skaut 1918 þegar Finnland varð sjálfstætt ríki.“ Finnland varð að vísu ekki sjálfstætt árið 1918, eins og Jón segir, heldur 6. desember 1917. En aðalatriðið er, að engin rússnesk svæði (önnur en Petsamo við Íshaf) féllu Finnum í skaut við fullt sjálfstæði. Kremlverjar viðurkenndu 1920 að langmestu leyti landamærin frá 1809, þegar Finnland gekk undan Svíum og varð stórhertogadæmi, sem laut Rússakeisara. Rússar höfðu þá skilað Finnlandi aftur svæðum í Kirjálalandi (Karelíu), sem þeir höfðu unnið á öndverðri átjándu öld eftir stríð við Svía. Þessi svæði voru byggð Finnum og hluti af Finnlandi nema tímabilið 1721–1809. Pútín virðist einmitt vilja miða landamæri ríkis síns við veldi Rússakeisara, eins og það var víðlendast.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. febrúar 2022.)
Rita ummæli