Laugardagur 14.05.2022 - 10:12 - Rita ummæli

Sarajevo, maí 2022

Þegar ég hélt fyrirlestur í Sarajevo í Bosníu-Hersegóvínu 12. maí 2022, varð mér eins og líklega flestum öðrum, sem til borgarinnar koma, hugsað til hins örlaríka júnídags árið 1914, en þá skaut þar serbneskur þjóðernissinni, Gavrilo Princip, ríkisarfa Habsborgarveldisins Franz Ferdinand og konu hans Sophie til bana. Þetta var upphafið að fyrri heimsstyrjöld.

Habsborgarveldið var tvískipt, í ungverska konungdæmið og austurríska keisaradæmið, en hvorum hluta fylgdu ýmis smærri lönd. Notuðu hinar sundurleitu þjóðir þess sömu mynt, mynduðu einn markað og lutu einum þjóðhöfðingja, svo að það var eins konar forveri Evrópusambandsins. Það, sem felldi Habsborgarveldið, var hið sama og kynni að fella Evrópusambandið, að veita einstökum svæðum ekki nægilega sjálfstjórn eins og gert var í Sviss með kantónum. Höfðu stjórnendur Habsborgarveldisins þó verið að fikra sig áfram að slíkri dreifstýringu.

Serbneskir þjóðernissinnar undu illa þessari þróun, því að hún gat haft í för með sér, að Slóvenar, Króatar og Bosníumenn sættu sig við að vera þegnar Habsborgaranna í stað þess að ganga inn í draumríki þeirra, sameinað ríki allra Suður-Slava. Franz Ferdinand var einn helsti stuðningsmaður frekari dreifstýringar, svo að serbneskir þjóðernissinnar vildu hann feigan, og nutu þeir fulltingis leynilögreglu Serbíu.

Fyrri heimsstyrjöld var alls ekki óhjákvæmileg og ekki heldur fall Habsborgarveldisins. Það var fásinna af Bretum að hefja þátttöku í stríðinu, en hefðu þeir setið hjá, þá hefðu Þjóðverjar, Austurríkismenn og Ungverjar í sameiningu sigrað Serba, Rússa og Frakka á nokkrum mánuðum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. maí 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir