Nýlegur úrskurður Hæstaréttar Bandaríkjanna, þar sem snúið er við frægum úrskurði frá 1973 í máli Roe gegn Wade, hefur verið misskilinn, jafnvel í máli þeirra, sem ættu að vita betur, eins og Silju Báru Ómarsdóttur, sem tók við kennslu í Bandarískum stjórnmálum af mér í Háskólanum. Hinn nýlegi úrskurður snýst ekki um fóstureyðingar (eða „þungunarrof“), heldur um valdmörk alríkisins og ríkjanna fimmtíu, sem mynda Bandaríkin. Dómararnir komast með ýmsum rökum að þeirri niðurstöðu, að ekkert það sé í stjórnarskrá alríkisins, sem bindi hendur einstakra ríkja til að setja eigin lög um fóstureyðingar. Ekki sé til neinn stjórnarskrárvarinn réttur til fóstureyðinga. Þeir hallast með öðrum orðum að dreifstýringu í stað miðstýringar.
Nú tel ég, að frambærileg rök séu til jafnt fyrir og gegn fóstureyðingum. Enginn mælir með barnaútburði. En hvenær verður fóstrið að barni, sem hefur rétt til að lifa óháð því, hvort það valdi öðrum með því óþægindum eða kostnaði? Lengst ganga þeir, sem telja það verða til við getnað. Aðrir segja, að það verði ekki til fyrr en við fæðingu. Enn aðrir telja og styðjast um það við mat lækna, að það kunni að vera, þegar liðnar séu tólf vikur af meðgöngu. Hvað sem því líður, er ástæðulaust að horfa fram hjá því, sem ræður andstöðu kirkjunnar við fóstureyðingar. Það er virðingin fyrir lífinu, ekki síst hinu ósjálfbjarga lífi. Það var með þeim rökum sem kirkjan beitti sér hart gegn stórfelldu líknardrápi nasista í Þýskalandi fyrir stríð. Á hinn bóginn á hver kona sig sjálf og hefur yfirráðarétt yfir líkama sínum. Einnig má deila um, hvort börn ættu að fæðast óvelkomin í þennan heim.
Þess má geta, að konan, sem nefnd var Jane Roe, óskaði á sínum tíma eftir fóstureyðingu og skaut máli sínu til Hæstaréttar Bandaríkjanna, Norma McCorvey, snerist síðar opinberlega gegn fóstureyðingum, en tvennum sögum fer af því, hvort þar hafi hugur fylgt máli.
Rita ummæli