Eins og ég hef áður bent á, merkja orðin „Las Vegas“ engjar og orðið „Nevada“ Snæland, svo að borgina með þessu nafni mætti kalla Engjar á Snælandi. Ég kynnti þar í apríl bók mína um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn á ráðstefnu Samtaka um einkaframtaksfræði, Association of Private Enterprise Education, en fór þangað aftur núna í júlí til að kynna hana á hinni árlegu Frelsishátíð, Freedomfest, en hana sækja rösklega tvö þúsund áhugamenn um hægri stefnu, hvort sem hún er kennd við frjálslyndi eða íhaldssemi.
En nú vandast málið, því að frjálshyggjumenn eins og Friedrich A. von Hayek eða Milton Friedman eru kallaðir íhaldsmenn (conservatives) í Bandaríkjunum, en frjálshyggjumenn eða nýfrjálshyggjumenn (liberals, neoliberals) í Evrópu og Rómönsku Ameríku.
Það veldur ómældum ruglingi, að þeir, sem kalla sig „liberals“ í Bandaríkjunum, eru oftast frjálslyndir jafnaðarmenn. Þeir eru sammála okkur frjálshyggjumönnum um, að vernda þurfi mannréttindi eins og trúfrelsi, félagafrelsi og málfrelsi, en sætta sig hins vegar ekki við, að frjálst val einstaklinga í viðskiptum ráða kaupum og kjörum. Ríkið verði ekki aðeins að skattleggja fólk til að afla fjár fyrir þjónustu sína, heldur líka til að endurdreifa fjármunum frá ríkum til fátækra. Hættan við slíka endurdreifingu er hins vegar auðvitað sú, að fjármunirnir renni ekki til þeirra, sem helst þurfa þá, heldur til hinna, sem eru best skipulagðir og háværastir.
Bandaríkjamönnum finnst því skrýtið að heyra talað um frjálslynda íhaldsmenn. Í augum þeirra eru þetta andstæður, ekki hliðstæður. En eins og Jón Þorláksson skýrði út fyrir Íslendingum árið 1926, skiptir máli, í hvað íhaldsmenn vilja halda, og ef þeir vilja halda í fengið frelsi, þá eru þeir frjálslyndir íhaldsmenn.
Rita ummæli