Laugardagur 23.07.2022 - 10:21 - Rita ummæli

Heyjað á Engjum

Fróðlegt var að sitja Frelsishátíðina, Freedomfest, í Las Vegas í Nevada (á Engjum í Snælandi, ef spænskunni er snarað) um miðjan júlí 2022, en þangað fór ég til að kynna bók mína, Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, sem kom út í tveimur bindum í árslok 2020. Ein málstofan var um, hver hefði sigrað í hugmyndabaráttunni, Adam Smith, Karl Marx eða John Maynard Keynes. Hagfræðingurinn Mark Skousen taldi einsætt, að hugmyndir Smiths hefðu reynst best. Frjáls alþjóðaviðskipti hefðu leitt af sér velmegun, en marxismi alls staðar endað með ósköpum. Hins vegar minnti Skousen á þá kenningu ítalska sameignarsinnans Antonios Gramscis, að marxistar ættu ekki að einbeita sér að því að hrifsa völdin í byltingu, heldur að breyta hugmyndaheiminum og ná þannig völdum óbeint og á lengri tíma. Þetta hefur einmitt verið að gerast á Vesturlöndum síðustu áratugi. Margvísleg afbrigði af marxisma eru vinsæl í háskólum og á fjölmiðlum. Hóphyggjumenn hafa öðlast dagskrárvald. Nú er ekki spurt, hvaða rök maður geti fært fyrir máli sínu, heldur úr hvaða hópi hann sé.

Önnur málstofa var um fólksfjölgun og hagsæld. Þar var bent á, að fólksfjölgun felur ekki aðeins í sér fleiri munna að metta, heldur líka fleiri hendur að vinna og fleiri heilabú að skapa. Hagfræðingarnir Marian Tupy og Gale L. Pooley kynntu þar væntanlega bók sína um allsnægtir. Þar nota þeir í stað peningaverðs tímaverð til að mæla efnahagslegan árangur. Tímaverð gæða sýnir, hversu lengi maður er að vinna fyrir þessum gæðum, og það verð hefur snarlækkað síðustu tvær aldir. Niðurstaða þessara höfunda er, að gæði jarðar aukist við fólksfjölgun, séu þau mæld í tímaverði. Hver viðbótarmaður geti skapað meiri verðmæti en hann eyði sjálfur. Ég spurði, hvort þessa kenningu mætti ekki leiða af þeirri hugmynd Adams Smiths, að verkaskiptingin, uppspretta hagsældar, takmarkaðist af stærð markaðarins, en auðvitað stækkar markaðurinn með hverjum einstaklingi, sem bætist við. Höfundarnir kváðu já við, en sögðu þó, að hugmynd Josephs Schumpeters um sköpunarmátt kapítalismans skýrði best efnahagslegar framfarir.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. júlí 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir