Sem kunnugt er, mætti kalla Las Vegas í Nevada Engjar á Snælandi eftir beinni merkingu orðanna á spænsku. Og vissulega heyjaði ég mér margvíslegan fróðleik á Engjum, þegar ég sótti þar Frelsishátíðina, Freedomfest, um miðjan júlí ásamt nokkur þúsund öðrum þátttakendum. En á Íslandi er venjulega haldið upp á það í slægjum, þegar heyskap lýkur, og þar syðra átti ég þess kost að sitja veislur, suðrænar slægjur, með mörgum merkismönnum.
Einn þeirra var hagfræðingurinn Arthur Laffer, sem Laffer-boginn er kenndur við, en hann sýnir, hvernig skatttekjur aukast fyrst með hærra skatthlutfalli, ná síðan hámarki og dragast loks saman. Ef komið er fram yfir aflahámarkið, þá ættu skatttekjur að geta aukist með lægra skatthlutfalli. Þetta gerðist til dæmis á Íslandi, þegar tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður úr 50% í 10% og skattur af leigutekjum úr um 45% að öllu jöfnu í 10%. Skattstofninn stækkaði. Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku.
Annar veislugesturinn var Steve Forbes, fyrrum forsetaframbjóðandi og útgefandi viðskiptatímaritsins með ættarnafnið. Hann vill eins og Laffer bæta lífskjör almennings með hagvexti, stærri köku, bakaríi í fullum gangi, ekki með því að hrifsa sjálfsaflafé af bjargálna fólki til að endurdreifa eftir hentisemi atkvæðaveiðara.
Þriðji merkismaðurinn var breski skopleikarinn John Cleese. Hann er orðinn ötull baráttumaður gegn ritskoðun í nafni gremjufræða (grievance studies), afturköllunarfárs (cancellation) og vælugangs (woke), en nú má ekki lengur hlæja að neinum öðrum en hvítum, hægri sinnuðum miðaldra körlum í góðum efnum. Cleese benti á, að hláturinn sameinar frekar en sundrar, og best væri, þegar við getum hlegið að okkur sjálfum. Hann sagði okkur margt skemmtilegt um hina ágætu gamanmynd Fiskinn Wanda, sem hann gerði á sínum tíma.
Í suðrænum slægjum er ekki boðið upp á flatkökur með hangikjöti, heldur safaríkar nautasteikur, en um þær sagði Cleese eins og stundum áður: „Ef Guð ætlaðist ekki til þess, að við legðum okkur dýr til matar, hvers vegna setti hann þá kjöt á þau?“
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. júlí 2022.)
Rita ummæli