Frá því að bók mín um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn í tveimur bindum kom út í árslok 2020, hef ég farið víða til að kynna hana. Nú liggur leiðin til Georgíu í Kákasus-fjöllum, en það land á sér langa og merka sögu. Talið er, að þar sé vínyrkja einna elst í heimi, átta þúsund ára. Georgía tók snemma kristni og var sjálfstætt konungsríki á miðöldum, en í lok átjándu aldar lögðu Rússar það undir sig. Í nokkur ár eftir byltingu bolsévíka var það aftur sjálfstætt, en síðan varð það ráðstjórnarlýðveldi. Josíf Stalín var ættaður þaðan og talaði alla tíð rússnesku með hreim. Eftir að Ráðstjórnarríkin leystust upp árið 1991, varð Georgía aftur sjálfstætt ríki. Samdráttur landsframleiðslu næstu árin var einn hinn mesti í heimi, spilling víðtæk og ríkisvald veikt.
Þetta breyttist í rósabyltingunni svokölluðu í nóvember 2003, þegar frjálshyggjumenn með rósir í höndum komust til valda í Georgíu. Þeir tóku hart á spillingu, en beittu sér aðallega fyrir því að mynda hagstætt umhverfi fyrir verðmætasköpun, lækka skatta og einfalda stjórnkerfið. Áhrifamesti umbótamaðurinn var Kakha Bendukidze. Hann var Georgíumaður, sem hafði auðgast í Rússlandi, en leist ekki á blikuna undir stjórn Pútíns, sneri aftur til heimalands síns árið 2004 og gerðist efnahagsmálaráðherra í nokkur ár. Umbætur hans skiluðu miklum árangri. Hagvöxtur í Georgíu varð einn hinn mesti í heimi, og þrátt fyrir að stjórnarandstæðingar sigruðu í kosningum árið 2012, hafa þeir ekki snúið til baka. Hagkerfið er enn eitt hið frjálsasta í heimi. Ég hitti stundum Bendukidze á alþjóðlegum ráðstefnum. Hann var brosmildur og hress í bragði, en digur mjög og dó um aldur fram árið 2014.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. ágúst 2022.)
Rita ummæli