Mánudagur 19.12.2022 - 13:01 - Rita ummæli

Barcelona, nóvember 2022

Árið 2022 hef ég sótt fundi í São Paulo, Reykholti, Ljubljana, Zagreb, Sarajevo, Belgrad, Kaupmannahöfn, Osló (tvisvar), Stokkhólmi, Las Vegas (tvisvar), Tbílísi, Tallinn, Split, Wroclaw, Búkarest, Vínarborg, Prag og Barcelona. Erindið var oftast að kynna bók mína á ensku um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, allt frá frumkvöðlunum Snorra Sturlusyni og heilögum Tómasi af Akvínas til höfuðspekinganna Adams Smiths og Friedrichs von Hayeks. Hún kom út í tveimur bindum í Brüssel í árslok 2020.

Síðasta málstofa ársins var í Barcelona 25.–26. nóvember, og hélt hana ELF, European Liberal Forum, sem starfar á vegum Evrópusamtaka frjálslyndra flokka. Tilefnið var, að nú er mjög sótt að frelsi til orðs og æðis, jafnt innan frá og utan. Háværir hópar vilja ákveða, hvað megi segja opinberlega um grímuskyldu, minnihlutahópa, hlýnun jarðar og margt fleira. Lýðskrumarar til hægri og vinstri leita að lægsta samnefnaranum meðal kjósenda. Valdaklíkan í Kremlarkastala reynir að leggja undir sig lönd.

Hvernig skal bregðast við? Sjálfur lét ég þá skoðun í ljós, að fylgismenn frelsisins yrðu að skipta með sér verkum. Sumir ættu að heyja stjórnmálabaráttu af hyggindum, skírskota til þeirra kjósendahópa, sem teldu sér hag í auknu atvinnufrelsi, þar á meðal lægri sköttum. Aðrir ættu að reka hugveitur, sem legðu fram hugvitsamlegar, en raunhæfar tillögur um, hvernig leysa mætti verkefni með verðlagningu frekar en skattlagningu, viðskiptum í stað valdboðs. Enn aðrir ættu að sinna fræðilegum rannsóknum, efla að rökum frjálslynda íhaldsstefnu, sem hvílir á fjórum stoðum, einkaeignarrétti, viðskiptafrelsi, valddreifingu og virðingu fyrir gamalgrónum gildum. Þótt vissulega væri sótt að frelsinu, hefði ástandið oft verið verra. Bölsýnin væri framtíðarspá, sem rættist af sjálfri sér. Ef menn máluðu skrattann á vegginn, þá ætti hann til að birtast þar. Hitt væri annað mál, að mæta yrði óvinum frelsisins af fullri festu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. desember 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir