Mánudagur 19.12.2022 - 13:01 - Rita ummæli

Greinin sem hvarf

Þegar ég hóf rannsókn mína á landsdómsmálinu, hafði ég óljósar spurnir af því, að einn dómarinn í landsdómi, Eiríkur Tómasson, hefði skrifað um bankahrunið á netinu. Hann hafði birt grein í Fréttablaðinu 14. febrúar 2009 um, að endurskoða þyrfti stjórnarskrána vegna bankahrunsins haustið 2008, og þar sagði í lokin, að lengri útgáfa væri til á vef blaðsins. Þessi lengri grein fannst þar hins vegar hvergi. Ég gróf hana loks upp í viðauka við prófritgerð nemanda á Bifröst, sem útvegað hafði sér afrit af henni.

Í greininni sagði Eiríkur, að þeim, sem hefðu opinbert vald, hætti til að misnota það. Hvarvetna, þar sem of mikið vald hefði safnast saman á örfáar hendur, hefði því farið illa. „Dæmi um það er ægivald íslenskra ráðherra gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins, en sú samþjöppun valds á fáar hendur hefur, eins og bent hefur verið á að undanförnu, átt sinn þátt í því að valda okkur Íslendingum meiri búsifjum en við, sem fædd erum um miðja sí›ustu öld, höfum áður kynnst.“ Ég sneri mér til vefstjóra visis.is sem kunni enga skýringu á því, að greinin hefði horfið, en gat sett hana inn aftur.

Í þessari grein reifaði Eiríkur beinlínis þá kenningu, að ein orsök bankahrunsins hefði verið „ægivald“ ráðherra gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins, sem þeir hefðu misnotað. Hefði verið vitað um þessa grein, þegar Eiríkur settist í landsdóm í ársbyrjun 2012, þá hefði hann tvímælalaust verið talinn vanhæfur til að dæma í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Hann hafði þegar látið í ljós þá skoðun, að Geir hefði átt þátt í bankahruninu með því að misnota „ægivald“ sitt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. desember 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir