Þegar ég hóf rannsókn mína á landsdómsmálinu, hafði ég óljósar spurnir af því, að einn dómarinn í landsdómi, Eiríkur Tómasson, hefði skrifað um bankahrunið á netinu. Hann hafði birt grein í Fréttablaðinu 14. febrúar 2009 um, að endurskoða þyrfti stjórnarskrána vegna bankahrunsins haustið 2008, og þar sagði í lokin, að lengri útgáfa væri til á vef blaðsins. Þessi lengri grein fannst þar hins vegar hvergi. Ég gróf hana loks upp í viðauka við prófritgerð nemanda á Bifröst, sem útvegað hafði sér afrit af henni.
Í greininni sagði Eiríkur, að þeim, sem hefðu opinbert vald, hætti til að misnota það. Hvarvetna, þar sem of mikið vald hefði safnast saman á örfáar hendur, hefði því farið illa. „Dæmi um það er ægivald íslenskra ráðherra gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins, en sú samþjöppun valds á fáar hendur hefur, eins og bent hefur verið á að undanförnu, átt sinn þátt í því að valda okkur Íslendingum meiri búsifjum en við, sem fædd erum um miðja sí›ustu öld, höfum áður kynnst.“ Ég sneri mér til vefstjóra visis.is sem kunni enga skýringu á því, að greinin hefði horfið, en gat sett hana inn aftur.
Í þessari grein reifaði Eiríkur beinlínis þá kenningu, að ein orsök bankahrunsins hefði verið „ægivald“ ráðherra gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins, sem þeir hefðu misnotað. Hefði verið vitað um þessa grein, þegar Eiríkur settist í landsdóm í ársbyrjun 2012, þá hefði hann tvímælalaust verið talinn vanhæfur til að dæma í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Hann hafði þegar látið í ljós þá skoðun, að Geir hefði átt þátt í bankahruninu með því að misnota „ægivald“ sitt.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. desember 2022.)
Rita ummæli