Evrópuvettvangur um minningu og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, var stofnaður í Liechtenstein-höllinni í Prag árið 2011 til að halda uppi minningu fórnarlamba alræðisstefnu tuttugustu aldar. Ég hef starfað í honum frá 2013 og sótti ársfund hans í Liechtenstein-höllinni 16. nóvember 2022. Jafnframt hélt vettvangurinn ráðstefnu á sama stað um hið fjölþætta (hybrid) stríð, sem valdaklíkan í Kreml heyr gegn vestrænum lýðræðisríkjum, ekki aðeins á vígstöðvunum í Úkraínu, heldur líka í fjölmiðlum, netmiðlum og sögubókum.
Forseti Litháens, Gitanas Nauseda, lagði áherslu á það í ræðu sinni, að nasismi og kommúnismi væru tvær greinar af sama meiði. Ástæða væri til að fordæma kommúnismann jafnskilyrðislaust og nasismann. Minna yrði á, að griðasáttmáli Stalíns og Hitlers hefði hleypt af stað seinni heimsstyrjöldinni.
Forsætisráðherra Tékklands, Petr Fiala, talaði 17. nóvember og rifjaði upp, að flauelsbyltingin tékkneska hefði átt sér stað þann dag árið 1989. Hrun kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu hefði verið kraftaverk, en þótt við ættum ekki að hætta að trúa á kraftaverk, skyldum við ekki treysta á þau. Þess vegna yrðu lýðræðisríkin að standa saman gegn látlausum tilraunum Kremlarklíkunnar til að grafa undan vestrænum gildum.
Svjatlana Tsíkhanouskaja, leiðtogi frelsisbaráttu Hvítrússa, sem stödd var á Íslandi fyrir skömmu, skoraði á Evrópuþjóðir að gleyma ekki Hvítrússum, sem vildu vera vestræn þjóð, ekki undir oki Rússa.
Prófessor Stéphane Courtois harmaði, að Rússland undir stjórn Pútíns virtist vera að hverfa aftur til alræðis. Kremlarklíkuna dreymdi um að stækka Rússland upp í það veldi, sem það var undir stjórn keisaranna. Courtois hefur nýlega ritstýrt bók, þar sem margir franskir fræðimenn skrifa um Pútín og valdaklíku hans. Undir ræðu hans flaug mér í hug, að líklega líktist Pútín sem fyrirbæri frekar Mússólíni en þeim Stalín og Hitler.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. nóvember 2022.)
Rita ummæli