Mánudagur 19.12.2022 - 13:06 - Rita ummæli

Vanhæfi sökum fjármálavafsturs

Þegar Geir H. Haarde var leiddur fyrir landsdóm 5. mars 2012, sakaður um refsiverða vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins, stóð hann andspænis þremur hæstaréttardómurum, sem höfðu tapað stórfé á bankahruninu, eins og fram kemur í bók minni um landsdómsmálið. Eiríkur Tómasson hafði átt hlutabréf í Landsbankanum og Glitni, sem urðu verðlaus, og hann hafði sem framkvæmdastjóri STEFs geymt stórfé í peningamarkaðssjóðum Landsbankans, og af því tapaðist um 30%. Markús Sigurbjörnsson hafði átt talsvert fé í peningamarkaðssjóðum Glitnis, og af því tapaðist um 20–30%. Viðar Már Matthíasson hafði átt hlutabréf í Landsbankanum. Samtals telst mér til, að beint fjárhagslegt tjón þessara þriggja dómara á bankahruninu hefði numið um 80 milljónum króna (þegar hæsta verð þessara eigna þeirra er fært til verðlags ársins 2022).

Í málum margra íslenskra bankamanna hefur Mannréttindadómstóllinn í Strassborg úrskurðað, að brotið hafi verið á rétti þeirra til óvilhallrar málsmeðferðar, þegar hæstaréttardómarar í málum þeirra hafi átt hlutabréf í bönkunum, sem þeir störfuðu hjá. Þetta á enn frekar við um Geir H. Haarde. Með neyðarlögunum í upphafi bankahruns ákvað hann að bjarga ekki bönkunum, en við þá ákvörðun urðu hlutabréf í bönkunum verðlaus. Jafnframt ákvað hann, að innstæður væru einar forgangskröfur í bú bankanna, ekki hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum, en í viðtali við Morgunblaðið 29. október 2008 líkti Eiríkur Tómasson þeirri ráðstöfun við stuld. Í þriðja lagi ákvað Geir í upphafi bankahrunsins að reyna að bjarga Kaupþingi frekar en Landsbankanum og Glitni, en það kunna hæstaréttardómarnir þrír að hafa talið ganga á hagsmuni sína, því að þeir áttu hlutabréf í Landsbankanum og Glitni og hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum þessara banka, ekki Kaupþings.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. desember 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir