Þegar Geir H. Haarde var leiddur fyrir landsdóm 5. mars 2012, sakaður um refsiverða vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins, stóð hann andspænis þremur hæstaréttardómurum, sem höfðu tapað stórfé á bankahruninu, eins og fram kemur í bók minni um landsdómsmálið. Eiríkur Tómasson hafði átt hlutabréf í Landsbankanum og Glitni, sem urðu verðlaus, og hann hafði sem framkvæmdastjóri STEFs geymt stórfé í peningamarkaðssjóðum Landsbankans, og af því tapaðist um 30%. Markús Sigurbjörnsson hafði átt talsvert fé í peningamarkaðssjóðum Glitnis, og af því tapaðist um 20–30%. Viðar Már Matthíasson hafði átt hlutabréf í Landsbankanum. Samtals telst mér til, að beint fjárhagslegt tjón þessara þriggja dómara á bankahruninu hefði numið um 80 milljónum króna (þegar hæsta verð þessara eigna þeirra er fært til verðlags ársins 2022).
Í málum margra íslenskra bankamanna hefur Mannréttindadómstóllinn í Strassborg úrskurðað, að brotið hafi verið á rétti þeirra til óvilhallrar málsmeðferðar, þegar hæstaréttardómarar í málum þeirra hafi átt hlutabréf í bönkunum, sem þeir störfuðu hjá. Þetta á enn frekar við um Geir H. Haarde. Með neyðarlögunum í upphafi bankahruns ákvað hann að bjarga ekki bönkunum, en við þá ákvörðun urðu hlutabréf í bönkunum verðlaus. Jafnframt ákvað hann, að innstæður væru einar forgangskröfur í bú bankanna, ekki hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum, en í viðtali við Morgunblaðið 29. október 2008 líkti Eiríkur Tómasson þeirri ráðstöfun við stuld. Í þriðja lagi ákvað Geir í upphafi bankahrunsins að reyna að bjarga Kaupþingi frekar en Landsbankanum og Glitni, en það kunna hæstaréttardómarnir þrír að hafa talið ganga á hagsmuni sína, því að þeir áttu hlutabréf í Landsbankanum og Glitni og hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum þessara banka, ekki Kaupþings.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. desember 2022.)
Rita ummæli