Mánudagur 19.12.2022 - 13:00 - Rita ummæli

Vínarborg, nóvember 2022

Fyrst kom ég í tónlistarhúsið í Vín, Staatsoper Wien, árið 1974. Ég var þá í erindum Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, á ráðstefnu í borginni og skrapp einn míns liðs á söngleik, Don Carlos eftir Verdi, sem saminn var upp úr leikriti Schillers. Mér fannst hann heldur langdreginn. Ég held að vísu, að ég kynni betur að meta verkið nú en þá. Árið 2019 var ég aftur staddur í borginni og horfði þá á listdans, ballet, Pétur Gaut, eftir Edvard Grieg. Tónlistin var afar ljúf og þægileg, og tíminn leið áfram áreynslulaust. Við vorum tveir, og í hléinu fengum við okkur kampavín.

Í nóvember 2022 var ég enn staddur í Vínarborg og átti að halda aðalræðuna til heiðurs viðtakanda Hayek-verðlaunanna þetta árið, en þau hlaut skólabróðir minn frá Oxford, dr. Emilio Pacheco, sem var lengi forstjóri Liberty Fund í Bandaríkjunum. Stofnunin, sem veitti verðlaunin, Hayek Institut, bauð okkur nokkrum fyrst sunnudagskvöldið 6. nóvember í kvöldverð á Rote Bar á Sacher gistihúsinu, þar sem ég hafði stundum átt ánægjulegar stundir áður, og síðan á söngleikinn La Traviata eftir Verdi í söngleikahöllinni, og var uppfærslan mjög kunnáttusamleg. Stefið var auðvitað, að kona með fortíð ætti sér enga framtíð.

Það var þó erfitt að taka hinar sterku ástríður helstu söguhetjanna í Traviata alvarlega. Þær virtust margar vera viti sínu fjær. Og þó. Daginn eftir sóttum við málstofu hjá Hayek Institut um nýútkomna ævisögu Hayeks eftir Bruce Caldwell og Hansjörg Klausinger, fyrra bindi, og þá kom í ljós, að árið 1950 hafði Hayek kastað frá sér öllu til þess að ganga að eiga æskuástina sína. Hann skildi fyrri konu sína og tvö börn þeirra eftir í Bretlandi með allar þær jarðnesku reytur, sem hann hafði eignast, sagði prófessorsembætti sínu í Lundúnum lausu og hélt til Bandaríkjanna, þar sem hann hóf kennslu við Chicago-háskóla. Ef til vill er það þá rétt, sem David Hume hélt fram, að skynsemin væri ambátt ástríðnanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. nóvember 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir