Laugardagur 08.07.2023 - 13:22 - Rita ummæli

Atvik úr bankahruninu

Í nýrri bók minni um landsdómsmálið segi ég frá ýmum minnisstæðum atvikum úr bankahruninu. Davíð Oddsson seðlabankastjóri gekk á fund ríkisstjórnarinnar 30. september 2008 til að vara við bankahruni. Á leiðinni út mætti hann þvögu af fréttariturum. Í miðjum hópnum var Sævar Cielselski, sem lét ófriðlega, en hann taldi ríkið hafa svikið sig um bætur. Strax og hann sá Davíð, gekk hann til hans. Davíð tók þétt í hönd hans og sagði: „Ja, þetta hlýtur að vera mikilvægt, fyrst við erum báðir kallaðir til skrafs og ráðagerða.“ Við það stilltist Sævar.

Á þingfundi 24. nóvember 2008 snöggreiddist Steingrímur J. Sigfússon ræðu, sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra var að flytja. Hann skundaði upp að ræðustól, hallaði sér dreyrrauður fram að Birni og starði illilega á hann um stund. Síðan gekk hann að Geir H. Haarde, sem sat á ráðherrabekknum, sló fast í framhandlegg hans og hvæsti: „Á þetta að ganga svona til?“

Aðsúgur var gerður að Geir við Stjórnarráðshúsið 21. janúar 2009, þegar hann ætlaði inn í bíl sinn. Barði Hallgrímur Helgason rithöfundur margsinnis í hliðarrúðuna farþega megin, þar sem Geir sat í framsætinu, en fékk ekki brotið hana. Aðrir óróaseggir reyndu að stöðva ferð bílsins með því að klifra upp á vélarhlífina. Tókst lögreglu loks við illan leik að ryðja bílnum braut.

Á árshátíð Seðlabankans á Hótel Nordica 25. janúar 2009 reyndu grímuklæddir ofbeldismenn að brjóta sér leið inn í veislusalinn. Gestum var órótt, á meðan höggin dundu á dyrum salarins, en andrúmsloftið léttist, þegar Davíð Oddsson snaraðist upp í ræðustól og sagði, að árshátíðarnefndin hefði bersýnilega unnið gott starf, því að færri kæmust að en vildu. Loks varð lögreglan þó að fylgja Davíð og konu hans út um bakdyr.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. janúar 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir