Laugardagur 08.07.2023 - 14:00 - Rita ummæli

Amsterdam, apríl 2023

Fyrsta kauphöll heims, sem enn starfar, var stofnuð í Amsterdam árið 1602. Hún hafði lengi aðsetur í reisulegu húsi við Oudebrugsteeg (Gömlubrúarstíg), og þar flutti ég fyrirlestur 20. apríl 2023 í fallegum fundarsal stjórnar kauphallarinnar. Átti það vel við, því að ég varði þar kapítalismann fyrir rökum jöfnunarsinna. Fremstur þeirra fræðilega var bandaríski heimspekingurinn John Rawls, sem setti fram kenningu um réttlæti árið 1971. Hún var í fæstum orðum, að réttlátt væri það skipulag, þar sem hinir verst settu nytu eins góðra lífskjara og framast gæti orðið. Um slíkt skipulag hlytu upplýstir menn, sem vissu þó ekki, hvernig þeim myndi sjálfum vegna í lífinu, að semja.

Ég spurði, hvers vegna upplýstir menn, sem væru að semja um framtíðarskipulag, hefðu aðeins í huga kjör hinna verst settu. Hvað um hina best settu, sem iðulega væru hinir hæfustu? Væri ekki skynsamlegra að semja um öryggisnet, sem enginn félli niður fyrir, en leyfa hinum hæfustu síðan að afla eins hárra tekna og þeir gætu? Rawls horfði líka fram hjá því, hvers vegna sumir lentu í röðum hinna verst settu, til dæmis vegna leti og óráðsíu. Frjálst val einstaklinga á markaði hlyti enn fremur að raska tekjudreifingunni, svo að stundum yrði hún ójafnari, án þess að neinu ranglæti hefði verið beitt. Það væri eitthvað einkennilegt við að segja, að Salieri hefði orðið verr settur við það, að Mozart kom í heiminn.

Hvað sem slíkum röksemdum liði, væri ljóst, sagði ég, að hinir verst settu nytu miklu betri lífskjara við kapítalisma en annars staðar. Væri hagkerfum heims skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, reyndust meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðungnum!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. júní 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir