Laugardagur 08.07.2023 - 13:46 - Rita ummæli

Danskur þjóðarandi

Á nítjándu öld minnkaði Danmörk niður í lítið þjóðríki, eftir að Danakonungur hafði misst konungsríkið Noreg, sem Svíar fengu árið 1814, og hertogadæmin Slésvík og Holtsetaland, sem Þjóðverjar lögðu undir sig árið 1864. Danir brugðust við með því að efla með sér þjóðarvitund undir sterkum áhrifum frá sálmaskáldinu og skólamanninum Nikolaj F. S. Grundtvig, sem var þjóðrækinn frjálshyggjumaður (og hafði meðal annars þýtt verk Snorra Sturlusonar á dönsku). Danir vöknuðu upp af stórveldisdraumum og tóku til starfa: Hvad udad tabes, skal indad vindes. Úti fyrir tapað, skal inni endurskapað. Til varð danskur þjóðarandi sjálfsprottins samstarfs allrar alþýðu í mjólkurbúum, íþróttafélögum, samvinnusamtökum, lýðháskólum og söfnuðum, jafnframt því sem frumkvöðlar nýttu sér nýfengið verslunar- og athafnafrelsi til siglinga og iðnframleiðslu og urðu skipakóngar og iðnjöfrar.

Velgengni Dana á tuttugustu öld var vegna öflugs réttarríkis, frjálsra alþjóðaviðskipta og sterkrar samkenndar, Danskhed, folkelighed. Þjóðarandi þeirra felur í sér notalega og óáleitna afstöðu til lífsins. Grundtvig talaði um hinn glaðværa kristindóm. „Sá, sem skilur ekki spaug, kann ekki dönsku,“ sagði Georg Brandes. Þegar þýskur herforingi hældi í upphafi hernámsins vorið 1940 Ernst Kaper, borgarstjóra í Kaupmannahöfn, fyrir hinn mikla sjálfsaga, sem Danir hefðu sýnt, var svarið: „Þetta er ekki agi, heldur menning.“ Best naut danskur þjóðarandi sín við tvö óvenjuleg verkefni. Dönum tókst með átaki allrar þjóðarinnar að koma langflestum Gyðingum landsins undan til Svíþjóðar í október 1943, eftir að spurst hafði út, að þýsku nasistarnir ætluðu að handtaka þá og senda í fangabúðir. Og Danir afhentu Íslendingum hin fornu handrit okkar frá og með árinu 1971, þótt þeir hefðu eignast þau á löglegan hátt. Sómatilfinning er einn þáttur dansks þjóðaranda.

(Fróðleiksmoli í Morgunbaðinu 1. apríl 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir