Laugardagur 08.07.2023 - 15:50 - Rita ummæli

Eskilstuna, júní 2023

Á sumarskóla fyrir unga íhaldsmenn á Norðurlöndum í Sundbyholm-höll við Eskilstuna 18. júní 2023 varpaði ég fram tveimur spurningum. Önnur var: Af hverju eiga íhaldsmenn að styðja frjálsan markað? Af því að hann er ekkert annað en vettvangur manna til að keppa að markmiðum sínum, þar á meðal þeim venjum og siðum, sem íhaldsmenn vilja vernda og rækta. Ríkið hefur hins vegar tilhneigingu til þess að grafa undan slíkum venjum og siðum. Með einkarétt sinn á að beita ofbeldi er það oftast miklu róttækara og hættulegra breytingarafl en markaðurinn. Ég benti á, að heildir eins og fjölskyldan og þjóðin væru ekki fastar og óbifanlegar. Menn fæðast inn í eina fjölskyldu og stofna aðra. Menn verða líka að fá að flytjast milli landa. Til þess að maður geti elskað land sitt, verður það að vera elskulegt, minnti Edmund Burke á. Þjóðin er dagleg atkvæðagreiðsla, kvað Ernest Renan.

Hin spurningin var: Af hverju eiga norrænir íhaldsmenn að vera frjálshyggjumenn? Af því að frjálshyggjan er þeirra annað eðli. Hún er hefð, sem hefur myndast á árþúsundum. Tacitus lýsti því þegar árið 98 e. Kr., hvernig germanskir ættbálkar stjórnuðu sér sjálfir. Þegar Ansgar biskup vildi kristna Svíþjóð um miðja níundu öld, tikynnti konungur einn honum, að hann yrði að bera erindi hans upp á þingum þegna sinna. Þegar sendimaður Frakkakonungs spurði síðar á öldinni Göngu-Hrólf og menn hans, hver hefði þar forystu, sögðust þeir allir vera jafnir. Í Heimskringlu kemur sú skoðun Snorra Sturlusonar berlega í ljós, að konungar verði að lúta lögum eins og aðrir, og geri þeir það ekki, megi setja þá af, eins og Þórgnýr lögmaður tók fram við Svíakonung árið 1018. Við þessa lagahefð og sáttmálakenningu frá miðöldum bætti Anders Chydenius rökum fyrir viðskiptafrelsi og Nikolai F. S. Grundtvig fyrir frjálsum samtökum, til dæmis skólum, söfnuðum og samvinnufélögum. Þessi frjálslynda norræna arfleifð hefur staðið af sér valdastreitu konunga að fornu og jafnaðarmanna að nýju.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júlí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir