Íslandsvinurinn David D. Friedman flutti fróðlegt erindi á ráðstefnu, sem ég sótti í apríl 2023. Hann kvað fyrstu fræðigrein sína hafa verið um fólksfjölgun, en skoðanir á henni fyrir hálfri öld hefðu verið svipaðar og nú um hlýnun jarðar. Um mikla vá hefði átt að vera að ræða. Hann hefði komist að þeirri niðurstöðu, að ógerlegt væri að meta tölulega, hvort viðbótareinstaklingar hefðu hreinan kostnað eða hreinan ábata í för með sér fyrir aðra. Hrakspár um afleiðingar fólksfjölgunar hefðu hins vegar ekki ræst.
Friedman kvaðst rökræðunnar vegna nota spár og greiningu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar: Líklega myndi jörðin hlýna um eitt til þrjú stig næstu hundrað ár, og talsvert af þeirri hlýnun yrði af manna völdum. Með því að brenna jarðefni og losa koltvísýring út í andrúmsloftið legðu menn kostnað á aðra.
En Friedman benti á, að hlýnunin hefði í för með sér ábata ekki síður en kostnað. Vissulega myndi akuryrkja breytast og ýmis mannvirki verða ónýt. En hlýnunin yrði tiltölulega hæg, og akuryrkja væri hvort sem er sífellt að breytast og mannvirki að endurnýjast. Hlýnun væri æskileg, þar sem kalt væri, og óæskileg, þar sem hlýtt væri. En eðlisfræðin kenndi, að hún kæmi misjafnt niður. Hitastig hækkaði meira á vetrum en sumrum og meira í köldum löndum en heitum. Friedman minnti á, að talsvert færri deyja í hitabylgjum en kuldaköstum. Gróður jarðar myndi aukast talsvert og sum svæði verða byggileg, þótt önnur færu í kaf.
Niðurstaða Friedmans var, að ógerlegt væri að meta tölulega, hvort líkleg hlýnun jarðar af manna völdum hefði í för með sér hreinan kostnað eða hreinan ábata. Hann minnti á, að loftslagið væri ekki gert fyrir mennina, heldur þyrftu menn að laga sig að loftslaginu. Mannkyn hefði í sögu sinni oft orðið að sætta sig við miklu krappari sveiflur í loftslagi en nú væri spáð, og á jörðu væri loftslag líka mjög breytilegt frá einum stað til annars.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. júní 2023.)
Rita ummæli