Laugardagur 08.07.2023 - 13:44 - Rita ummæli

Landsfeður, leiðtogar, fræðarar, þjóðskáld

Anthony D. Smith, sem var sérfræðingur um þjóðernismál, skilgreindi þjóð sem heild með eigið nafn og afmarkað landsvæði, þar sem íbúar deila arfleifð minninga, goðsagna, tákna, verðmæta og hefða, halda uppi sérstakri menningu og fara eftir sömu lögum og venjum. Samkvæmt því voru Íslendingar þegar á þjóðveldisöld sérstök þjóð. Smith sagði einnig, þegar um þjóðlega vakningu væri að ræða, eins og víða varð á nítjándu öld, að þá spryttu upp landsfeður (eða landsmæður), sem vitnað væri til, leiðtogar, sem veittu forystu, fræðarar, sem settu saman bækur, og þjóðskáld, sem legðu heildinni orð á tungu. Í Frakklandi væri til dæmis Jóhanna af Örk landsmóðirin, Napóleon leiðtogi, Michelet fræðari og Hugo þjóðskáld. Það er umdeilanlegt (Napóleon var ekki einu sinni Frakki!), og enn umdeilanlegri er kenning Smiths um Noreg: Snorri og Ólafur Tryggvason væru landsfeður, Bjørnson leiðtogi, Wergeland fræðari og Ibsen þjóðskáld. Snorri var Íslendingur, og Ólafur helgi er almennt talinn hinn norski landsfaðir.

Þótt Smith nefndi ekki Ísland, er ábending hans skemmtileg. Hverjir myndu hér gegna þessum hlutverkum? Þeir Þorgeir Ljósvetningagoði og Einar Þveræingur væru landsfeðurnir, því að þeir lýstu sérstöðu Íslendinga í frægum ræðum. Leiðtoginn væri Jón Sigurðsson, sem taldi Ísland hvorki vera skattland, hjálendu né nýlendu, heldur sérstakt land í konungssambandi við Dani. Fræðarinn væri Sigurður Nordal, sem reyndi markvisst að skilgreina og jafnvel skapa séríslenska menningu. Þjóðskáldið væri Jónas Hallgrímsson, sem endurnýjaði íslenska tungu, þótt tvö helstu kvæði hans í anda rómantískrar þjóðernishyggju ættu sér erlendar fyrirmyndir: „Ísland“ var keimlíkt kvæði eftir Adam Oehlenschläger og „Gunnarshólmi“ kvæði eftir Adelbert von Chamisso. En dæmi Jónasar sýnir best, að þjóðernishyggja og alþjóðahyggja þurfa ekki að vera andstæður. Erlend áhrif geta frjóvgað og auðgað þjóðlega menningu. Best fara þeir að ráði sínu, sem eru þjóðræknir heimsborgarar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. mars 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir