Laugardagur 08.07.2023 - 13:56 - Rita ummæli

Lundúnir, apríl 2023

Í málstofu í Lundúnum 18. apríl var mér falið að ræða um hlutverk frumkvöðla á frjálsum markaði. Þegar Karl Marx skipti á nítjándu öld fólki í tvær stéttir, borgara og öreiga, horfði hann fram hjá þeim, sem lifa af að selja þekkingu sína, kunnáttu og hugvit frekar en hrátt vöðvaafl, svo sem rafvirkjum, tölvunarfræðingum, læknum og verkfræðingum. Atvinnulífið er ekki ein stór verksmiðja, heldur iðandi kös ótal ólíkra fyrirtækja og einstaklinga, sem skiptast á vöru og þjónustu, þegar þeir sjá sér hag í því. Marx horfði líka fram hjá þeim, sem knýja áfram hagkerfið með því að fitja upp á á nýjungum, frumkvöðlum, áhættufjárfestum og framkvæmdamönnum.

Flestir viðurkenna, að nýsköpun sé nauðsynleg. En spurningin er, hvort hún sé líklegri við einn opinberan nýsköpunarsjóð með tíu manna stjórn, sem ákveði, í hverju skuli festa fé, eða við tíu þúsund eða fleiri aflögufæra áhættufjárfesta. Sjóðurinn gerir í mesta lagi nokkrar tilraunir á ári, en tíu þúsund áhættufjárfestar gera væntanlega að minnsta kosti tíu þúsund tilraunir. Enn fremur er hæfileikinn til að sannfæra meiri hlutann í sjóðstjórn um verkefni, til dæmis með áferðarfallegum glærum og myndugum málflutningi, ekki nauðsynlega hæfileikinn til að reka fyrirtæki með hagnaði til langs tíma. Ályktunin hlýtur að vera, að nýsköpun sé líklegust í skipulagi einkaeignar, viðskiptafrelsis og valddreifingar, markaðskerfi.

Frumkvöðlar eru sjaldnast reknir áfram af ágirndinni einni saman, heldur miklu miklu fremur sköpunargleði, forvitni, nýjungagirni og metnaði. Og um leið og þeir hagnast sjálfir, gera þeir öðrum gagn. Þetta sést best á kjörum fátæklinga í ólíkum hagkerfum. Ef löndum heims er skipt í fernt eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er, þá eru meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur í heild í ófrjálsasta fjórðungnum samkvæmt mælingum Fraser-stofnunarinnar í Vancouver.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. maí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir