Laugardagur 08.07.2023 - 13:42 - Rita ummæli

Níðvísan þjónaði tilgangi

Hér hefur ég fyrir nokkru varpað fram þeirri tilgátu, að Snorri Sturluson hafi samið söguna um landvættirnar í því skyni að telja þá Hákon konung Hákonarson og Skúla jarl Bárðarson af því að senda herskip til Íslands eins og þeir hugðust gera árið 1220 eftir skærur norskra kaupmanna og íslenskra goða, sem vildu setja á verðlagshöft. Hefur Snorri væntanlega flutt söguna hárri raust við hirðina eitthvert kvöldið yfir silfurslegnum bikurum við eld í arni.

Sagan gerðist árið 982. Haraldur blátönn Danakonungur hafði að ráði bryta síns Birgis gert upptækt íslenskt skip, sem strandað hafði á landi hans. Ákváðu þá Íslendingar að yrkja níðvísur um konung, eina á hvert nef. Haraldur vildi hefna þess með innrás, en sendi fyrst fjölkunnugan njósnara í hvalslíki til landsins. Sá rakst á landvættirnar, en færði Haraldi líka þær fréttir, að með endilöngu landi væru aðeins sandar og hafnleysur, en haf svo mikið þangað norður, að ófært væri langskipum. Hvarf Haraldur frá innrás. Til þess að boðskapurinn yrði ekki augljós um of, gerði Snorri konung Dana, ekki Norðmanna, að aðalsöguhetjunni.

Haraldur blátönn hafði orðið æfur við níðið, enda þekktu fornmenn aðallega tvær aðferðir til að ná sér niðri á öðrum, ofbeldi og níð. Mælskulist var þeim miklu mikilvægari en nútímamönnum, og varðaði níð skóggangi samkvæmt lögum Þjóðveldisins. Snorri tilfærði eina níðvísuna um Danakonung, og var hún hin groddalegasta. Átti hann að hafa sorðið bryta sinn Birgi eins og stóðhestur meri. En Snorri var auðvitað óbeint að segja þeim Hákoni konungi og Skúla jarli, að ekki yrði aðeins erfitt að senda innrásarher til Íslands, heldur réðu landsmenn einnig yfir beittu vopni, orðsins brandi. Þess vegna þjónaði hin groddalega níðvísa, sem Snorri tilfærði, sérstökum tilgangi í sögunni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. mars 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir