Hér hefur ég fyrir nokkru varpað fram þeirri tilgátu, að Snorri Sturluson hafi samið söguna um landvættirnar í því skyni að telja þá Hákon konung Hákonarson og Skúla jarl Bárðarson af því að senda herskip til Íslands eins og þeir hugðust gera árið 1220 eftir skærur norskra kaupmanna og íslenskra goða, sem vildu setja á verðlagshöft. Hefur Snorri væntanlega flutt söguna hárri raust við hirðina eitthvert kvöldið yfir silfurslegnum bikurum við eld í arni.
Sagan gerðist árið 982. Haraldur blátönn Danakonungur hafði að ráði bryta síns Birgis gert upptækt íslenskt skip, sem strandað hafði á landi hans. Ákváðu þá Íslendingar að yrkja níðvísur um konung, eina á hvert nef. Haraldur vildi hefna þess með innrás, en sendi fyrst fjölkunnugan njósnara í hvalslíki til landsins. Sá rakst á landvættirnar, en færði Haraldi líka þær fréttir, að með endilöngu landi væru aðeins sandar og hafnleysur, en haf svo mikið þangað norður, að ófært væri langskipum. Hvarf Haraldur frá innrás. Til þess að boðskapurinn yrði ekki augljós um of, gerði Snorri konung Dana, ekki Norðmanna, að aðalsöguhetjunni.
Haraldur blátönn hafði orðið æfur við níðið, enda þekktu fornmenn aðallega tvær aðferðir til að ná sér niðri á öðrum, ofbeldi og níð. Mælskulist var þeim miklu mikilvægari en nútímamönnum, og varðaði níð skóggangi samkvæmt lögum Þjóðveldisins. Snorri tilfærði eina níðvísuna um Danakonung, og var hún hin groddalegasta. Átti hann að hafa sorðið bryta sinn Birgi eins og stóðhestur meri. En Snorri var auðvitað óbeint að segja þeim Hákoni konungi og Skúla jarli, að ekki yrði aðeins erfitt að senda innrásarher til Íslands, heldur réðu landsmenn einnig yfir beittu vopni, orðsins brandi. Þess vegna þjónaði hin groddalega níðvísa, sem Snorri tilfærði, sérstökum tilgangi í sögunni.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. mars 2023.)
Rita ummæli