Laugardagur 08.07.2023 - 13:32 - Rita ummæli

Sérstaða og samstaða: Tveir ásar Íslandssögunnar

Landnemarnir úr Noregi höfðu ekki búið lengi í þessu landi, þegar þeir tóku að líta á sig sem sérstaka þjóð. Sighvatur skáld Þórðarson orti í Austurfararvísum um hin „íslensku augu“, sem hefðu dugað sér vel. Um svipað leyti, árið 1022, gerðu Íslendingar sinn fyrsta milliríkjasamning, og var hann við Norðmenn um gagnkvæman rétt þjóðanna. Segja má, að eftir það hafi tveir ásar Íslandssögunnar verið sérstaða þjóðarinnar annars vegar og samstaða með öðrum þjóðum hins vegar.

Þegar Ari fróði setti saman Íslendingabók, lagði hann Þorgeiri Ljósvetningagoða í munn lýsingu í þingræðu árið 1000 á sérstöðu Íslands. „Hann sagði frá því, at konungar ór Norvegi ok ór Danmörku höfðu haft ófrið ok orrostur á milli sín langa tíð, til þess uns landsmenn gerðu frið á milli þeira, þótt þeir vildu eigi.“ Hér á landi voru engir konungar til að spilla friðnum. Í því var sérstaða landsins ekki síst fólgin að sögn goðans á Ljósavatni. En Þorgeir lagði þó til í sömu ræðu, að Íslendingar tækju upp sömu trúarbrögð og grannþjóðirnar. Samstaðan með öðrum þjóðum væri ekki síður mikilvæg en sérstaðan.

Nefjólfssynir og Þveræingar

Einni öld síðar gat að líta svipaðan samleik sérstöðu og samstöðu í frásögn annars sagnritara, Snorra Sturlusonar, frá umræðum á Alþingi árið 1024. Íslenskur hirðmaður Ólafs digra Noregskonungs, Þórarinn Nefjólfsson, hafði boðið Íslendingum að ganga honum á hönd. Einar Þveræingur flutti þá um það ræðu, sem Snorri hefur eflaust samið sjálfur, að Íslendingar ættu að vera vinir konungs, en ekki þegnar. Þótt Einar efaðist ekki um, að Ólafur digri væri ágætur, væru konungar misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og væri því best að hafa engan konung.

Æ síðan hafa málsmetandi Íslendingar skipst í tvo flokka: Þveræinga, sem vilja vinfengi við aðrar þjóðir án undirgefni, í senn sérstöðu og samstöðu, og Nefjólfssyni, sem hafa þá ósk heitasta að herma allt eftir öðrum þjóðum, vilja fórna allri sérstöðu fyrir fulla samstöðu. Útlendingar hafa margir heldur lagst á sveif með Nefjólfssonum. Sturla Þórðarson (sem ólíkt frænda sínum Snorra var frekar í liði Nefjólfssona en Þveræinga) skýrði frá því, þegar Vilhjálmur kardináli af Sabína hreytti út úr sér við krýningu Noregskonungs árið 1247, hversu það væri „ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni“.

Stefna Jóns Sigurðssonar og Hannesar Hafstein

Þegar Íslendingar urðu nauðugir að ganga á hönd Noregskonungi árið 1262, skildu þeir það til í sáttmála, að þeir fengju haldið íslenskum lögum og að opinberir sýslunarmenn skyldu íslenskir vera. Leiðtogi þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttunni, Jón Sigurðsson, vísaði óspart til þessa sáttmála, þegar hann rökstuddi tilkall hennar til sjálfsforræðis. En um leið var Jón eindreginn stuðningsmaður verslunarfrelsis. „Þú heldur, að einhver svelgi okkur. Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti,“ sagði hann í bréfi til bróður síns árið 1866. „Frelsið kemur að vísu mest hjá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis.“ Fyrir rás viðburða hafði Danakonungur leyst Noregskonung af hólmi, og Jón Sigurðsson var óragur að gera kröfur á hendur Dönum fyrir fornar misgerðir, þótt hann vissi vel, að þeir myndu seint viðurkenna slíkar bótakröfur.

Fyrsti íslenski ráðherrann, Hannes Hafstein, fylgdi stefnu Jóns Sigurðssonar. Eins og samherji hans, Jón Þorláksson, orðaði það, vildi Hannes „afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga hjá þeim fyrir því að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni.“

Stefna Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar

Hér var mikilvægast meðalhófið, að ganga ekki of langt í aðra áttina, ýmist til fullrar sérstöðu þjóðarinnar og einangrast þá eða til fullrar samstöðu með öðrum þjóðum og týna þá sjálfri sér. Á öndverðri tuttugustu öld voru Íslendingar svo innblásnir af sjálfstæðisbaráttunni, að raddir Nefjólfssona heyrðust sjaldan. Það kom þó fyrir. Til dæmis lagði Jón Þorláksson til, þegar semja skyldi dagskrá fyrir þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930, að ræða fyrirhugaða útfærslu landhelginnar, en Ásgeir Ásgeirsson hafnaði því með þeim rökum, að tignir erlendir gestir á hátíðinni kynnu að taka því illa. Í minnisblöðum erlendra erindreka um viðræður við þá Ólaf Thors og Bjarna Benediktsson seinna á öldinni var iðulega hneykslast á því, hversu fast þeir tveir héldu jafnan fram kröfum Íslendinga. (Eitt dæmi er í skýrslum bandaríska sendiherrans Louis Dreyfus um samskipti hans við Ólaf árin 1944–1946.)

Báðir voru þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson Þveræingar frekar en Nefjólfssynir. Þeir voru sannfærðir um, að eftir skilnaðinn við Dani væri öryggis- og viðskiptahagsmunum Íslendinga best borgið í nánu samstarfi við Bandaríkjamenn, en við Íslendingar skyldum vera vinir þeirra, ekki herma allt eftir þeim. Þótt báðir væru þeir síðan hlynntir verslunarfrelsi, var af ýmsum ástæðum við ramman reip að draga. En því rifja ég allt þetta upp, að í dag fagnar sjötíu og fimm ára afmæli sá stjórnmálamaður, sem helst hefur beitt sér síðustu áratugi fyrir hugmyndinni um sérstöðu með samstöðu, um meðalhóf milli tveggja ása Íslandssögunnar, um vináttu við aðrar þjóðir án undirgefni, Davíð Oddsson.

Stefna Davíðs Oddssonar

Í forsætisráðherratíð sinni 1991–2004 beitti Davíð Oddsson sér fyrir róttækum umbótum í frelsisátt. En hann var ekki knúinn áfram af erlendum kennisetningum, heldur stefndi hann að því einfalda markmiði að auka hér frelsi til jafns við það, sem gerðist í helstu grannríkjum. Það var vissulega mikilvægt skref, þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu í ársbyrjun 1994. Eins og Jón Sigurðsson hafði sagt: „Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti.“ En Íslendingar gátu átt kaup og viðskipti á Evrópumarkaði án þess að þurfa að lúta skriffinnunum í Brüssel. Enn fremur voru margvíslegar þær umbætur, sem Davíð beitti sér fyrir ásamt samherjum sínum, óháðar EES-aðild, svo sem að styrkja hið arðbæra kvótakerfi í sjávarútvegi, selja ríkisfyrirtæki, lækka skatta, greiða niður skuldir ríkissjóðs og efla lífeyrissjóði.

Íslendingar fundu síðan undir forystu þeirra Davíðs Oddssonar, sem nú var orðinn seðlabankastjóri, og Geirs H. Haarde forsætisráðherra leið út úr erfiðleikunum, sem bankarnir lentu í haustið 2008 vegna hinnar alþjóðlegu lausafjárkreppu. Margir hagfræðingar og bankamenn höfðu lagt til, að ríkissjóður tæki stórlán erlendis (jafnvel með veði í orkulindunum) og forðaði bönkunum frá falli með því að dæla peningum inn í þá. En þeir Davíð og Geir töldu það óraunhæft og ákváðu þess í stað að girða landið af og gera innstæður sparifjáreigenda að forgangskröfum á bú bankanna. Með því takmörkuðu þeir stórlega skuldbindingar ríkissjóðs og róuðu sparifjáreigendur. Hefði Ísland verið í Evrópusambandinu, hefði þetta hins vegar verið ógerlegt, og væntanlega hefði landið þá verið leikið jafngrátt og Írland og Kýpur og sokkið djúpt í skuldafen.

Eftirmál bankahrunsins

Þótt skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu frá árinu 2010 sé meingölluð, kemur skýrt fram í henni, að sem seðlabankastjóri varaði Davíð Oddsson margsinnis við hinum öra vexti bankanna og undirbjó í kyrrþey aðgerðir. Þar réð þó frekar tilfinning gamalreynds stjórnmálamanns en talnaflóð úr skýrslum alþjóðastofnana, niðurstöðum matsfyrirtækja, álitsgerðum hagfræðinga og endurskoðuðum ársreikningum bankanna, sem allt hneig í aðra átt. En íslensku bankarnir hefðu þó hugsanlega einhverjir staðið af sér hina hörðu alþjóðlegu lausafjárkreppu, sem hófst síðsumars 2007, hefði Seðlabanki Bandaríkjanna veitt Seðlabankanum sömu lausafjárfyrirgreiðslu og skandinavísku seðlabönkunum þremur og Bretastjórn veitt bresku bönkunum tveimur í eigu Íslendinga sömu aðstoð og öllum öðrum breskum bönkum.

Í því ljósi var með ólíkindum, að vinstri stjórn, sem tók við í febrúarbyrjun 2009, skyldi láta það verða sitt fyrsta verk að flæma Davíð Oddsson úr Seðlabankanum ásamt tveimur starfsbræðrum hans, þaulreyndum og vammlausum seðlabankamönnum. Hafði hún þá að engu regluna um sjálfstæði seðlabanka. Í stað seðlabankastjóranna þriggja réð stjórnin Norðmann einn og braut með því stjórnarskrána, en þar er kveðið skýrt á um það, að embættismenn skuli vera íslenskir ríkisborgarar. Það hafði einmitt verið áskilnaður Íslendinga, þegar þeir gengu árið 1262 á hönd Noregskonungi, að íslenskir skyldu opinberir sýslunarmenn vera. (Sigurður Líndal lagaprófessor færði sterk rök gegn því, að hér skipti máli greinarmunur á setningu og skipun, eins og Nefjólfssynir héldu fram.) Hinn nýráðni Norðmaður lét taka mynd af sér með forsætisráðherra Noregs, þar sem þeir stikuðu um Seðlabankann eins og þeir ættu hann og brostu gleitt.

Icesave-málið

Ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins hafði ekki aðeins neitað breskum bönkum í eigu Íslendinga um sömu lausafjárfyrirgreiðslu og allir aðrir breskir bankar fengu í hinni alþjóðlegu lausafjárkreppu og brotið með því bann EES-samningsins við mismunun eftir þjóðerni. Hún hafði einnig lokað útbúum bankanna í Bretlandi, beitt hryðjuverkalögum á Landsbankann, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og sett þessi fyrirtæki og stofnanir á sama lista á heimavef breska fjármálaráðuneytisins og Al-Kaída og Talíbana. Jafnframt gerði hún kröfu um, að íslenska ríkið endurgreiddi sér fjárútlát vegna svokallaðra Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi í stað þess að eignir bankans fengju að ganga upp í þá eins og gert var annars staðar við sambærilegar aðstæður. Við þetta hefði mörg hundruð milljarða króna vaxtakostnaður fallið á ríkissjóð, hversu verðmætar sem eignir bankans hefðu reynst.

Sem seðlabankastjóri hafði Davíð Oddsson staðið fast gegn því sjónarmiði Nefjólfssona, að á ríkið hefði fallið greiðsluskylda vegna viðskipta einkaaðila, banka og erlendra innstæðueigenda. Nú barðist hann sem ritstjóri Morgunblaðsins með odd og egg gegn undanlátssemi vinstri stjórnarinnar, sem hafði í samningum við Bretastjórn viðurkennt þessa greiðsluskyldu í reynd. Eftir að þeir samningar höfðu tvisvar verið felldir í þjóðaratkvæðagreiðslum, komst alþjóðlegur dómstóll að sömu niðurstöðu og Davíð hafði jafnan haldið fram, að engin greiðsluskylda hefði fallið á ríkissjóð vegna þessara einkaviðskipta. Reyndist eignasafn Landsbankans vera miklu verðmætara en talið hafði verið (eins og raunar hinna bankanna líka), og var Icesave-skuld Landsbankans við Breta greidd að fullu.

Það var hins vegar óviðkunnanlegt að sjá íslenska háskólamenn brosa breitt haustið 2012 við David Miliband, utanríkisráðherra stjórnarinnar, sem sett hafði hryðjuverkalög á Íslendinga, en hélt nú fyrirlestur í Háskólanum um, að Íslendingar ættu að ganga í hönd skriffinnunum í Brüssel. Hafði Miliband látið það boð út ganga fyrir lesturinn, að hann kærði sig ekki um að ræða samskipti Bretlands og Íslands haustið 2008, og virtu Nefjólfssynir það, enda mátti ekki styggja tigna erlenda gesti fremur en fyrri daginn.

Stærstur í andstreymi

Davíð Oddsson hafði verið farsæll og sigursæll forsætisráðherra. Hann hafði þá líka oftast haft góðan byr. En líklega var hann stærstur í hinu mikla andstreymi áranna 2008–2013, þegar hann fann ásamt traustum samherjum leið út úr ógöngum bankanna og tók snarplega þátt í baráttunni gegn yfirgangi útlendinga. Í senn hélt hann þá á lofti sérstöðu íslensku þjóðarinnar, sem vildi ráða sínum málum sjálf, og nauðsynlegri samstöðu hennar með öðrum þjóðum. Honum höfðu dugað vel augun íslensku eins og Sighvati Þórðarsyni forðum.

(Grein í Morgunblaðinu 17. janúar 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir