Laugardagur 08.07.2023 - 13:35 - Rita ummæli

Sjötugur

Það er fagnaðarefni, að ég skuli verða sjötugur 19. febrúar 2023. Hitt væri óneitanlega miklu verra, að verða ekki sjötugur. Annars er lífið undarlegt ferðalag: Við mælum það í dögum, þeim tíma, sem það tekur jörðina að snúast í kringum sjálfa sig, og árum, þeim tíma, sem það tekur jörðina að þeysast í kringum sólina. Nú er ég einn af þeim jarðarbúum, sem eru að fara í sjötugasta sinn lengri ferðina. Það er ef til vill ekki merkilegt fyrir annað en það, að við þau tímamót er okkur opinberum starfsmönnum á Íslandi gert að láta af störfum. Þetta gerist, þrátt fyrir að lífslíkur séu hér einhverjar hinar mestu í heimi og margir haldi óskertum starfskröftum miklu lengur en til sjötugs.

Aðalatriðið er þó ekki lengd ævinnar, heldur notkun tímans, hversu margir dagar hafa ekki farið til spillis, heldur nýst í sköpun, skemmtun og baráttu fyrir betri heimi og þess vegna skilið eftir sig merkilegar minningar. „Gildi lífsins liggur ekki í fjölda daganna, heldur notkun þeirra,“ skrifaði Montaigne. „Ónotað líf er ótímabær dauðdagi,“ mælti Goethe. Ég vona, að margan daginn eigi ég enn eftir að fara að morgni með mitt leiðarstef:

Við hliðið mitt ég heimanbúinn stend,
á himni ljómar dagsins gullna rönd;
sú gjöf mér væri gleðilegust send,
að góður vinnudagur færi í hönd.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. febrúar 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir