Það er fagnaðarefni, að ég skuli verða sjötugur 19. febrúar 2023. Hitt væri óneitanlega miklu verra, að verða ekki sjötugur. Annars er lífið undarlegt ferðalag: Við mælum það í dögum, þeim tíma, sem það tekur jörðina að snúast í kringum sjálfa sig, og árum, þeim tíma, sem það tekur jörðina að þeysast í kringum sólina. Nú er ég einn af þeim jarðarbúum, sem eru að fara í sjötugasta sinn lengri ferðina. Það er ef til vill ekki merkilegt fyrir annað en það, að við þau tímamót er okkur opinberum starfsmönnum á Íslandi gert að láta af störfum. Þetta gerist, þrátt fyrir að lífslíkur séu hér einhverjar hinar mestu í heimi og margir haldi óskertum starfskröftum miklu lengur en til sjötugs.
Aðalatriðið er þó ekki lengd ævinnar, heldur notkun tímans, hversu margir dagar hafa ekki farið til spillis, heldur nýst í sköpun, skemmtun og baráttu fyrir betri heimi og þess vegna skilið eftir sig merkilegar minningar. „Gildi lífsins liggur ekki í fjölda daganna, heldur notkun þeirra,“ skrifaði Montaigne. „Ónotað líf er ótímabær dauðdagi,“ mælti Goethe. Ég vona, að margan daginn eigi ég enn eftir að fara að morgni með mitt leiðarstef:
á himni ljómar dagsins gullna rönd;
sú gjöf mér væri gleðilegust send,
að góður vinnudagur færi í hönd.
Rita ummæli