Laugardagur 08.07.2023 - 13:41 - Rita ummæli

Sögulegar deilur

Tveir kunnustu menntamenn Ítala á tuttugustu öld voru heimspekingurinn Benedetto Croce og hagfræðingurinn Luigi Einaudi. Báðir voru þeir frjálshyggjumenn, en þeir deildu um, hvað í því fælist. Croce var lærisveinn Hegels og taldi sögu mannkyns sögu heimsandans, sem kæmist smám saman til vitundar um sjálfan sig og yrði frjáls. Sagan væri saga frelsisins: í upphafi hafði aðeins einn maður verið frjáls, harðstjórinn, síðan einn hópur, höfðingjastéttin, og loks allir menn. Í riti um Evrópusögu árið 1931 lét Croce í ljós þá skoðun, að tengsl frjálshyggju við atvinnufrelsi væri skilorðsbundin og aðeins söguleg, ekki rökleg. Menn gæti verið frjálsir, þótt einkaeignarréttur væri afnuminn eða verulega skertur. Croce gerði greinarmun á liberalismo, frjálshyggju sinni, og liberismo, afskiptaleysisstefnu í efnahagsmálum.

Einaudi tók undir það, að maðurinn lifði ekki á brauði einu saman, en benti á, að hagfræðileg greining þyrfti ekki að hafa í för með sér andlausa nytjastefnu. Hún væri aðallega aðferð við að skoða afleiðingar af ólíkum úrræðum. Sárafáir hagfræðingar hefðu fylgt fullkominni afskiptaleysisstefnu. Einaudi hafnaði því þó algerlega, að frelsi gæti þrifist í ríki, sem hefði afnumið einkaeignarrétt. Í fyrsta lagi yrðu borgararnir þá svo háðir stjórnvöldum um afkomu sína, að þeir væru ekki frjálsir nema að nafninu til. Í öðru lagi gerðu sameignarsinnar ráð fyrir, að allir ættu að þramma saman að settu marki. Þeir gætu ekki leyft óháðum félögum eða stofnunum að trufla þá göngu. Einaudi sagði, að vissulega gæti atvinnufrelsi farið saman við einræði í stjórnmálum, eins og dæmi Napóleons III. í Frakklandi sýndi. En hið gagnstæða ætti ekki við: þegar atvinnufrelsi væri stórlega skert, væri úti um borgaraleg réttindi og lýðræðislegt stjórnarfar. Greinarmunur Croces á liberalismo og liberismo væri misráðinn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. mars 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir