Laugardagur 08.07.2023 - 13:47 - Rita ummæli

Split, apríl 2023

Á ráðstefnu evrópskra íhaldsflokka í Split í Króatíu 31. mars og 1. apríl flutti ég fyrirlestur um frjálslynda íhaldsstefnu í Evrópu. Ég velti því þar fyrir mér, hvenær Evrópa hefði orðið til í sögulegum skilningi. Það hefði aðallega gerst í tveimur áföngum: árið 732, þegar Karl Martel hratt árás Serkja við Tours í Suður-Frakklandi, og árið 1683, þegar Jóhann Sobieski, konungur Póllands, hratt árás Tyrkja við Vínarborg. En munurinn á Evrópu og Rómaveldi er ekki aðeins, að Rómaveldi var ekki evrópskt, heldur Miðjarðarhafsveldi, heldur líka sá, að Evrópa einkennist af fjölbreytni, mörgum ólíkum ríkjum og svæðum, hvert með sinn sið. Edward Gibbon lýsti því eftirminnilega í Rómverjasögu sinni, að í Rómaveldi hefði hvergi verið til sá staður, sem hrammur keisarans hefði ekki náð til, en að í Evrópu síns tíma hefðu verið til ótal undankomuleiðir fyrir andófsmenn og minnihlutahópa.

Frjálslynd íhaldsstefna verður best skilin sem sjálfsvitund Evrópu, sagði ég, hinn evrópski andi, þegar hann hefur komist að því, hver hann er, og fyllst stolti yfir sjálfum sér. Uppistöðurnar væru einkaeignarréttur, viðskiptafrelsi, valddreifing og virðing fyrir arfleifð kynslóðanna. Oft væri frjálslynd íhaldsstefna rakin til Breta, og vissulega hefðu þeir John Locke, David Hume, Adam Smith og Edmund Burke eflt hana að rökum. En ég benti á, að margir aðrir evrópskir hugsuðir hefðu líka lagt talsvert til hennar, til dæmis Ítalirnir heilagur Tómas af Akvínas og hagfræðingurinn Luigi Einaudi. Einnig nefndi ég þrjá djúpsæja norræna rithöfunda. Snorri Sturluson hefði stutt þá kenningu, að konungar ríktu með samþykki þegnanna og væru bundnir af lögunum. Anders Chydenius hefði haldið því fram (á undan Adam Smith), að viðskiptafrelsi væri öllum í hag. Nikolaj F. S. Grundtvig hefði minnt á mikilvægi sjálfsprottinnar samvinnu í frjálsu þjóðskipulagi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. apríl 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir