Laugardagur 08.07.2023 - 13:37 - Rita ummæli

Stighækkandi tekjuskattur

Árin 1494–1509 háði Flórens kostnaðarsamt stríð við Pisu. Ítalski sagnfræðingurinn Francesco Guicciardini sagði frá fundi í Æðsta ráði Flórens um, hvernig skipta skyldi kostnaðinum. Einn af þeim, sem tóku til máls, mælti: „Byrðarnar, sem lögð er á fátæklinginn og ríka manninn, eru taldar jafnar, þegar þeir leggja báðir fram tíunda tekna sinna. En þótt tíundi hlutinn af tekjum ríka mannsins skili sér í hærri skatttekjum en tíundi hlutinn af tekjum fátæklingins, á fátæklingurinn miklu óhægara með þessi útgjöld. Byrðar þeirra eru ekki jafnaðar með því, að báðir greiði sama hlutfall, heldur með því, að óhagræði þeirra af greiðslunum sé jafnt.“

Með þessari hugmynd er stighækkandi tekjuskattur réttlættur. Ríka manninum muni minna um háar skattgreiðslur en hinum fátæka. En þegar fyrir fimm hundruð árum benti Guicciardini á, að við þetta dregur úr vilja manna og getu til verðmætasköpunar. Stighækkandi tekjuskattur er í raun skattur á því að verða ríkur, brjótast til bjargálna, ekki skattur á því að vera ríkur. Guicciardini kvað ræðumanninn í ráðinu ef til vill hafa talað varlegar, hefði hann haft í huga, að yfirvöldunum væri ætlað að tryggja frelsi og frið borgarinnar og vernda íbúa hennar, en ekki að valda óróa og íþyngja þeim með ótal reglugerðum.

Þetta er kjarni málsins. Ríkið veitir ákveðna þjónustu, og fyrir það eiga borgararnir að greiða. En greiðslan á að fara eftir þjónustunni, ekki greiðslugetu þeirra, alveg eins og á við um annars konar þjónustu. Fátæklingar þurfa að greiða sama verð fyrir brauð bakarans og ríkir menn, enda væru fá bakarí ella rekin. Stighækkandi tekjuskattur er órökréttur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. febrúar 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir