Eftir að ég sótti málstofu um Montesquieu og aðra upplýsingarmenn átjándu aldar í Jórvík á Englandi í júní 2023, varð mér ljóst, að því hefur ekki verið veitt athygli á Íslandi, hvað heimspekingurinn franski hefur fram að færa um norrænar þjóðir. Því ber mjög saman við það, sem ég hef sagt um hinn norræna og forngermanska frjálshyggjuarf.
Í 6. kafla 11. bókar Anda laganna skrifar Montesquieu, að nóg sé að lesa rit rómverska sagnritarans Tacitusar til að sjá, hvaðan Englendingar fengu stjórnmálahugmyndir sínar. Hið haglega skipulag þeirra hafi orðið til í skógum Germaníu. Sem kunnugt er hafði Tacitus lýst því í ritinu Germaníu, hvernig germanskir ættbálkar leiddu mál til lykta á almennum samkomum. Yrðu konungar og höfðingjar að lúta lögum eins og aðrir. Þótt Germanía hafi komið út í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags (2001), er hvergi í inngangi eða skýringum á þetta minnst.
Í 5. kafla 17. bókar Anda laganna segir Montesquieu, að Norðurlönd geti með sönnu hreykt sér af því að vera uppspretta frelsis Evrópuþjóðanna. Í 6. kafla sömu bókar bætir Montesquieu því að vísu við, að staðhættir í Evrópu hafi leitt til skiptingar hennar í mörg ríki, sem ekki séu hvert um sig of stórt. Sæmilegt jafnvægi hafi myndast milli þeirra, svo að erfitt hafi verið fyrir eitthvert eitt þeirra að leggja önnur undir sig og þau því farið að lögum og nýtt sér kosti frjálsra viðskipta.
Eftir daga Montesquieus komust þrír harðstjórar þó nálægt því að leggja mestallt meginland Evrópu undir sig, fyrst Napóleon á öndverðri nítjándu öld, síðan þeir Hitler og Stalín í sameiningu með griðasáttmálanum sumarið 1939. Í bæði skiptin stöðvuðu Bretar þá eða eins og Montesquieu kynni að segja: Hinn norræni andi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júlí 2023.)
Rita ummæli