Laugardagur 29.07.2023 - 14:39 - Rita ummæli

Norræna leiðin: Molesworth

Á dögunum rifjaði ég upp, að franski stjórnmálaheimspekingurinn Montesquieu hefði rakið hina vestrænu frjálshyggjuhefð til Norðurlanda, til hins norræna anda. Hann var ekki einn um það. Robert Molesworth var breskur aðalsmaður og Viggi, en svo nefndust stuðningsmenn byltingarinnar blóðlausu 1688, en hún var gerð til varnar fornum réttindum Englendinga og venjum, ekki til að endurskapa skipulagið eftir forskrift misviturra spekinga. Molesworth var góðvinur Johns Lockes og Frances Hutchesons, kennara Adams Smiths, og hafði mikil áhrif á bandarísku byltingarmennina.

Molesworth var sendiherra Breta í Danmörku árin 1689–1692, og þegar heim kom, gaf hann út bókina Lýsingu Danmerkur árið 1692 (sem bandaríski frelsissjóðurinn, Liberty Fund, endurútgaf árið 2011). Þar kvað hann Dani hafa búið við verulegt frelsi fyrir 1660, þegar Danakonungur gerðist einvaldur með stuðningi borgaranna í Kaupmannahöfn. Þeir hefðu valið konunga sína og neytt þá til að samþykkja frelsisskrár. Konungarnir hefðu orðið að stjórna með samþykki þegna sinna, sem hefðu getað sett þá af, ef þeir brutu lögin. Þessar fornu hugmyndir hefðu síðan styrkst í Bretlandi, en veikst í Danmörku.

Þegar Molesworth var sendiherra í Danmörku, var byltingin blóðlausa nýlega um garð gengin í Bretlandi og enn hætta á því, að hinn burtrekni Jakob II. konungur sneri aftur og kæmi á einveldi svipuðu og í Frakklandi og Danmörku. En þótt Molesworth fyndi danskri þjóðmenningu flest til foráttu, hældi hann Dönum fyrir réttarkerfi þeirra. Lögin væru skráð á einföldu og auðskiljanlegu máli, og dómstólar væru tiltölulega óháðir. Það er lóðið. Danir bjuggu eins og aðrir Norðurlandabúar við réttarríki, sem þróast hafði á þúsund árum, og þess vegna gat frelsið skotið djúpum rótum í þessum heimshluta, þegar leið fram á nítjándu öld.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júlí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir