Laugardagur 05.08.2023 - 08:00 - Rita ummæli

Undrunarefni Sigurðar

Englendingar eru stoltir af því, að með þeim mynduðust snemma venjur, sem stuðluðu að frjálslyndu lýðræði: allir væru jafnir fyrir lögum, en fulltrúasamkomur veittu konungum aðhald. Í merkri ritgerð í ritinu Nordic Democracy árið 1981 bendir prófessor Sigurður Líndal þó á, að Norðurlandaþjóðir bjuggu við svipaðar venjur. Þegar í fornöld lýsti rómverski sagnritarinn Tacitus því, hvernig Germanir komu saman á þingum og leiddu mál til lykta. Þá er heilagur Ansgar fór í kristniboðsferð til Svíþjóðar árið 852, sagði sænskur konungur honum: „Við höfum þá venju, að fólkið sjálft ráði fram úr almennum málum og ekki konungurinn.“

Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð leiddu menn fram eftir öldum mál til lykta á svæðisþingum. Fóru þingin með dómsvald og raunar einnig með löggjafarvald, sem takmarkaðist þó af fornum venjum. Misnotuðu konungar vald sitt, mátti setja þá af, eins og víða getur í Heimskringlu. Til að konungar næðu kjöri, urðu þeir að lofa að virða lög og venjur. Stéttaþing voru síðan stofnuð í Svíþjóð 1435 og í Danmörku 1468. Enn fremur urðu konungar að samþykkja margvíslegar réttindaskrár, til dæmis Eiríkur klippingur Danakonungur árið 1282 og Magnús smek Svíakonungur árið 1319. Voru þær ekki síðri ensku réttindaskránni frægu Magna Carta frá 1215.

Ólíkt því sem varð á Englandi, gátu konungar í Svíþjóð og Danmörku þó aukið völd sín um skeið á sextándu og sautjándu öld. Þegar þegnar þeirra kröfðust síðan aukinna stjórnmálaréttinda á átjándu og nítjándu öld, voru kröfurnar oftast studdar enskum hugmyndum. Sigurður Líndal undrast að vonum, að ekki skyldi líka vísað til hins norræna stjórnmálaarfs, sem skýri, hversu djúpum rótum frjálslynt lýðræði gat skotið á Norðurlöndum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. ágúst 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir