Laugardagur 12.08.2023 - 06:52 - Rita ummæli

Þrír norrænir spekingar

Norðurlandaþjóðir þurftu ekki að sækja frjálshyggju til annarra. Margar hugmyndir hennar voru rótgrónar á Norðurlöndum. Íslenski sagnritarinn Snorri Sturluson (1179–1241) lýsti því í Heimskringlu, hvernig Norðurlandaþjóðir leiddu eins og aðrar germanskar þjóðir mál til lykta á samkomum, og urðu konungar að beygja sig fyrir lögunum og samþykktum alþýðu. Ella voru þeir settir af. Snorri var höfundur einnar fyrstu Íslendinga sögunnar, Egils sögu, en tvö meginstef Íslendingasagna voru, að konungar væru varasamir og menn gætu leyst flest mál sín sjálfir án afskipta þeirra. Íslendingasögur voru um sérstöðu okkar, leitina að jafnvægi í ríkisvaldslausu landi.

Sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius (1729–1803) sat á sænska stéttaþinginu og fékk Svía til að setja lög til tryggingar málfrelsi, jafnframt því sem hann mælti með viðskiptafrelsi, því að það væri öllum í hag. Hann hafði greint hinar slæmu afleiðingar, sem einokun hafði á verslun yfir Eystrasalt. Bók hans með þessum boðskap, Þjóðarhagur, kom út ellefu árum á undan Auðlegð þjóðanna eftir Adam Smith.

Danski presturinn, sálmaskáldið og rithöfundurinn N. F. S. Grundtvig (1783–1872) hugleiddi, hvernig valdið gæti flust frá konungi til almennings, án þess að frelsinu væri fórnað, eins og hafði gerst í frönsku stjórnarbyltingunni. Þessu marki mætti ná með því að auka menntun almennings, sérstaklega í lýðháskólum, og með því að nýta samtakamátt einstaklinga í frjálsum félögum, þar sem þeir lærðu að semja sig hver að öðrum og finna sér tilgang. Grundtvig lagði líka mikla áherslu á hina norrænu arfleifð og sneri á dönsku Heimskringlu Snorra og Danmerkursögu Saxos. Hann efldi þjóðarvitund Dana, kenndi þeim að reyna ekki að vinna önnur lönd, heldur afla nýrra markaða.

Velgengni Norðurlandaþjóða er þrátt fyrir jafnaðarstefnu, ekki vegna hennar. Skýringin á því, að þeim hefur vegnað tiltölulega vel, er, að þær búa við öflugt réttarríki, frjáls alþjóðaviðskipti og mikla samleitni, sem leiðir til ríks gagnkvæms trausts og auðveldar öll frjáls samskipti. Þeir Snorri, Chydenius og Grundtvig sköpuðu ekki hina norrænu arfleifð, því að hún skapaðist á löngum tíma. En þeir lýstu henni vel. Þeir eru merkustu frjálshyggjuhugsuðir Norðurlanda.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. ágúst 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir