Sunnudagur 03.09.2023 - 12:42 - Rita ummæli

Upprifjun um alræmdan sjónvarpsþátt

Sjónvarpið sendi 31. ágúst 1984 út umræðuþátt með hinum heimskunna hagfræðingi Milton Friedman og þremur íslenskum vinstri mönnum, og er hann aðgengilegur á Youtube. Vinstri mennirnir gerðu sitt besta, en höfðu þó lítt roð við Friedman. Einn þeirra, Stefán Ólafsson félagsfræðingur, bryddaði upp á máli, sem ekki var síðan rætt í þaula, því að umræðurnar færðust strax annað. Kvað hann Noreg dæmi um land, sem vegnaði vel þrátt fyrir víðtæk ríkisafskipti og háa skatta, líka áður en olía fannst þar undan ströndum.

Ég rakst nýlega í grúski mínu á tölur um þetta mál. Eðlilegast er að miða aðeins við tímabilið frá um 1950, þegar landið hafði náð sér eftir stríð, og fram á áttunda áratug, þegar olían fannst. Árin 1950–1960 var árlegur hagvöxtur í Noregi að jafnaði 2,6 af hundraði, nokkru minni en meðaltalið í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sem var 3,3 af hundraði, en svipaður og á öðrum Norðurlöndum. Árin 1960–1973 var hagvöxtur í Noregi 3,7 af hundraði, aftur svipaður og á öðrum Norðurlöndum, en meðaltal OECD ríkja var þá 4,0 af hundraði.

Hagvöxtur í Noregi var því á þessu tímabili nokkru minni en almennt gerðist í aðildarríkjum OECD. Aðalatriðið er þó, að þessi hagvöxtur var knúinn afram af valdboðinni fjárfestingu, miklu meiri en í grannríkjunum, og þá á kostnað neyslu. Árin 1950–1959 var fjárfestingarhlutfallið í Noregi að jafnaði 32 af hundraði, en 17 af hundraði í Danmörku og 21 af hundraði í Svíþjóð. Árin 1960–1969 var fjárfestingarhlutfallið í Noregi að jafnaði 29 af hundraði, en 21 af hundraði í Danmörku og 23 af hundraði í Svíþjóð. Það skilaði þannig engum árangri að fela norskum embættismönnum og atvinnustjórnmálamönnum fjárfestingarákvarðanir. Norðmenn sáðu án þess að uppskera. Þeir voru sviptir þeim lífsgæðum, sem eðlileg neysla hefði fært þeim og grannar þeirra nutu. Stefán hafði eins og fyrri daginn rangt fyrir sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. september 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir