Þriðjudagur 05.12.2023 - 06:09 - Rita ummæli

Bretton Woods, nóvember 2023

Mont Pelerin-samtökin voru stofnuð í apríl 1947, þegar nokkrir frjálslyndir fræðimenn komu saman í Sviss, þar á meðal hagfræðingarnir Ludwig von Mises, Frank H. Knight, Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, George J. Stigler og Maurice Allais og heimspekingurinn Karl R. Popper. Var tilgangurinn að blása nýju lífi í menningararf Vesturlanda með frjálsri rannsókn og rökræðu. Ég hef verið félagi frá 1984 og sat í stjórn 1998–2004.

Dagana 29. október til 2. nóvember 2023 héldu samtökin ráðstefnu í Bretton Woods í Bandaríkjunum um skipulag alþjóðaviðskipta, tæpum 80 árum eftir að þar var haldinn frægur fundur, þar sem Keynes lávarður og fleiri lögðu á ráðin um stofnun Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í því skyni að koma á festu í alþjóðaviðskiptum. Segja má, að Bretton Woods-samkomulagið hafi brostið, þegar Bandaríkin hættu að tryggja gjaldmiðil sinn í gulli árið 1971. Eftir það hefur heimurinn notast við pappírspeninga, sem eru ekkert annað en ávísanir á sjálfar sig.

Við Ragnar Árnason, prófessor emeritus í auðlindahagfræði, og dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, sóttum þessa ráðstefnu. Erindi á ráðstefnum Mont Pelerin-samtakanna eru flutt í trúnaði, en óhætt er að segja frá því, sem birst hefur annars staðar að frumkvæði höfunda sjálfra. Þrennt stóð upp úr. Prófessor Douglas Irwin lýsti með traustum gögnum hinum stórkostlega ávinningi af frjálsum alþjóðaviðskiptum. Phil Gramm, fyrrverandi öldungardeildarþingmaður og hagfræðiprófessor, sýndi fram á, að opinber gögn um tekjudreifingu í Bandaríkjunum væru meingölluð, þar eð tekjur væru ekki reiknaðar eftir skatta og bætur, sem hvort tveggja jafna þær mjög. Tyler Goodspeed, hagfræðingur í Hoover-stofnuninni, benti á, að frjáls alþjóðaviðskipti gætu orðið sumum hópum í óhag til skamms tíma, þótt þau væru öllum í hag til langs tíma. Sjálfur lýsti ég íslenska bankahruninu 2008 í löngu máli fyrir David Malpass, bankastjóra Alþjóðabankans 1919–2023, þegar við sátum saman kvöldverð.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. desember 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir