Sunnudagur 24.12.2023 - 09:24 - Rita ummæli

Gyðingahatur

Einfaldasta skilgreiningin á Gyðingahatri er, þegar lagður er allt annar mælikvarði á Gyðinga en aðra jarðarbúa, svo að þeim leyfist ekki að verja sig af sömu hörku og öðrum. Dæmigerð eru ofsafengin viðbrögð við því, þegar Ísraelar svöruðu villimannslegri árás hryðjuverkasamtakanna Hamas á þá frá Gaza 7. október 2023 með gagnárás í því skyni að stöðva hryðjuverk Hamas. Hvað áttu Ísraelar að gera? „Ef Arabar leggja niður vopn, þá verður friður. Ef Ísraelar leggja niður vopn, þá verður Ísrael útrýmt,“ sagði Golda Meir. Tvær milljónir Araba eru ríkisborgarar í Ísrael og njóta þar fullra réttinda.

Íslensk tónskáld vilja, að Ísraelar sæti sömu meðferð og Rússar í alþjóðlegri söngvakeppni. En munurinn er sá, að Rússar réðust á Úkraínu, en Hamas á Ísrael. Hér er lagður allt annar mælikvarði á Ísraela en Rússa. Hvers vegna? Vegna þess að þeir eru Gyðingar. Horft er síðan fram hjá því, að erfitt er að gera greinarmun á Palestínumönnum á Gaza og Hamas. Þeir kusu yfir sig Hamas og virðast flestir styðja þessi viðbjóðslegu hryðjuverkasamtök, sem hafa það yfirlýsta markmið að útrýma Ísrael. Ekkert tillit er heldur tekið til þess, að Hamas skýtur sífellt eldflaugum á óbreytta borgara í Ísrael, tók gísla í árásinni 7. október og notar eigin konur og börn sem lifandi skildi. Hamas ber ábyrgð á því, þegar konur og börn falla í Gaza. Hvers vegna beinist reiðin ekki að þeim? Vegna þess að þeir eru ekki Gyðingar.

Gyðingar hafa alltaf skorið sig úr. Í Rómarveldi voru þeir ofsóttir, af því að þeir trúðu á einn Guð og þvertóku fyrir að dýrka keisarana. Á miðöldum kenndu sumir kristnir menn Gyðingum um krossfestingu Krists, og skyldu syndir feðranna koma niður á börnunum. Nú á dögum virðist helsta skýringin á Gyðingahatri vera, að þeir skara fram úr. 214 Gyðingar hafa hlotið Nóbelsverðlaun í vísindum, þrír Arabar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. desember 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir